Engar hamfarir að hefjast

Víðir Reynisson á fundinum í dag.
Víðir Reynisson á fundinum í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn segir að engar hamfarir séu að fara að hefjast á Reykjanesskaga. Enginn er í hættu. Hann hvetur fólk til að vera ekki á ferli á svæðinu. Kristín Jónsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, tekur undir þetta. 

Þetta kom fram á upplýsingafundi almannavarna. 

Jarðskjálftavirknin undanfarið teiknar upp línu sem nær á milli Litla Hrúts og Keilis. Hugsanlegt er að kvika sé að færast upp á yfirborðið. Þetta sagði Kristín á fundinum. Skjálftarnir hafa orðið við Litla Hrút. Myndast hefur sigdæld án þess að það hafi myndast sprungur á yfirborði.

Eftir að virknin fór að ágerast í dag fór þyrla í loftið til að athuga hvort eitthvað væri að. Ekkert sást í þeirri ferð.

Ekki eru miklar líkur á því að gosið verði hættulegt ef af því verður, bætti hún við.

Kristín sagði að fólk þyrfti ekki að hafa miklar áhyggjur af gasmengun sem fylgdi gosinu. Metur hún stöðuna þannig að á meðan hrinan og þessi umbrot eru í gangi sé spenna að safnast upp á svæðinu og þá aukast líkur á stærri skjálftum á svæðinu og svæðum í kring. Gætu þeir orðið af stærðinni 6 á þessu svæði eða 6,5 á Bláfjallasvæðinu.

Víðir sagði þróunina núna smellapassa inn í þær sviðsmyndir sem teiknaðar hafa verið upp að undanförnu.

Raflínur eru norðanmegin á Reykjanesskaganum. Þær eru ekki í hættu miðað við þau líkön sem hafa verið teiknuð upp, að sögn Víðis.

Viðbragðsáætlun Isavia gengur út á að flugumferð verði lokað í 40 mínútur ef af gosi verður. Afar ólíklegt, að sögn Kristínar, er að gosið myndi hafa á flugumferð erlendis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert