Óróinn og virknin að færast í aukana á ný

Óróinn og virknin á skjálftasvæðinu á Reykjanesi hefur færst í aukana nú á sjötta tímanum eftir fremur rólega nótt fyrir utan skjálfta sem mældist 4,1 skömmu fyrir eitt í nótt. Klukkan 5:45 varð skjálfti sem mældist 4 stig á sömu slóðum og aðrir skjálftar á sjötta tímanum, það er við Fagradalsfjall.

Klukkan 5:17 reið yfir skjálfti sem mældist 3,9 en upptök hans voru 0,8 km SSV af Fagradalsfjalli. Aðeins nokkrum sekúndum fyrr hafði annar jarðskjálfti upp á 3,5 riðið yfir á svipuðum slóðum. Klukkan 5:36 varð skjálfti sem mældist 3,9 stig á sömu slóðum og hinir við Fagradalsfjall. 

Óróapúls mældist klukkan 14:20 í gær og sást á flestum jarðskjálftamælum og er staðsettur suður af Keili við Litla-Hrút.

Skjálftavirknin hefur verið að færast sunnar og nær Grindavík en þeir eru allir í og við Fagradalsfjall, segir Bjarki Kaldalóns Fri­is nátt­úru­vár­sér­fræðingur á Veðurstofu Íslands. Of snemmt er að segja til um það hvort einhver breyting er að verða á skjálftasvæðinu en ef það er sprunga á þessu svæði við Keili getur skjálftavirknin greinst víðar. 

Hátt í 20 skjálftar yfir þrír að stærð hafa mælst frá miðnætti en alls eru skjálftarnir á þessu tímabili um og yfir 700 talsins. 

Bjarki segir að yfir 18 þúsund skjálftar hafi mælst frá því skjálftahrinan hófst á miðvikudagsmorgun fyrir rúmri viku.

Kröftug jarðskjálftahrina hófst á Reykjanesskaga 24. febrúar með skjálfta af stærð 5,7 og 5,0. Síðan þá hafa fjölmargir skjálftar yfir 4,0 mælst á svæðinu og tveir skjálftar yfir 5,0. Þeir urðu 27. febrúar (M5,2) og 1. mars (M5,1). 

Uppfært klukkan 6.30

Í gær mældust um 2.500 jarðskjálftar og frá miðnætti hafa tæplega 800 skjálftar mælst. Í heildina hafa ríflega 18 000 jarðskjálftar mælst síðan hrinan hófst fyrir um viku. Mesta virknin er bundin við Fagradalsfjall og hefur færst aðeins í suðvestur miðað við virkni í gær. Órói og skjálftavirkni minnkaði aðeins um miðja nótt en jókst aftur um fimm í nótt. 15-20 skjálftar yfir 3 að stærð hafa mælst frá miðnætti.

Stærstu skjálftar frá miðnætti:

  • Klukkan 00:59 – 4,1
  • Klukkan 04:04 – 3,6
  • Klukkan 05:17 – 3,9
  • Klukkan 05:36 – 3.9
  • Klukkan 05:44 – 4,0
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert