Þvertaka fyrir að vera í samkrulli

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Gunnar Smári Egilsson sósíalistaforingi.
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Gunnar Smári Egilsson sósíalistaforingi. Samsett mynd

Frásagnir þess efnis að Gunnar Smári Egilsson sósíalistaforingi hafi verið tíður gestur á skrifstofu Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, nú í aðdraganda formannskjörs VR hafa heyrst víða undanfarið. Þá hefur heyrst að Gunnar Smári ráðleggi Ragnari Þór fyrir formannskjörið og brýni fyrir honum málflutning sósíalista. 

Í samtali við mbl.is þvertekur Ragnar Þór fyrir það og segir slíkt samkrull vera „úr eins lausu lofti gripið og hugsast getur“.

Hann segir Gunnar Smára hvorki hafa ráðlagt sér né heimsótt sig á skrifstofu sína. „Hann kemur ekki nálægt minni kosningabaráttu, og hefur ekki gert,“ segir Ragnar Þór.

Þá segir Ragnar Þór skrifstofu sína hafa verið lokaða undanfarið vegna Covid-19. 

„Við höfum ekki verið að taka á móti fólki nema þeim sem þurfa á mestri aðstoð að halda, t.d. í gegnum Virk-starfsendurhæfinguna,“ segir Ragnar Þór. 

Gunnar Smári neitar sömuleiðis

„Ég hef ekki heimsótt Ragnar Þór töluvert lengi,“ segir Gunnar Smári í samtali við mbl.is. Hann telur Ragnar Þór ekki þurfa á neinum ráðleggingum að halda þar sem hann er formaður VR. „Það væri skrýtinn maður sem kæmi inn af götunni og ætlaði að segja honum hvernig ætti að tala við félaga í VR,“ segir Gunnar Smári. 

Hann telur umræður meðal félaga Sósíalistaflokksins um formannskjör VR ekki meiri en annars staðar og þætti ekki óeðlilegt að þær væru meiri. „Þetta eru mest spennandi kosningarnar núna, fólk fær ekki einu sinni að kjósa í Eurovision,“ segir Gunnar Smári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert