Virknin sú kröftugasta í tvo sólarhringa

Kort/Veðurstofa Íslands

Mikil virkni hefur verið í syðsta hluta ganganna við Fagradalsfjall frá því um fimm í morgun segir Kristín Jónsdóttir, fag­stjóri nátt­úru­vá­r hjá Veður­stof­unni, en  virknin er sú mesta sem hefur mælst í tvo sólarhringa. 

Hún segir að skjálftarnir séu allir litlir en þetta er þriðja óróakviðan sem mælist á þessum slóðum. „Ég held að þetta sé til marks um það að gangurinn sé að stækka mjög hratt,“ segir Kristín í samtali við mbl.is. Mikil átök eigi sér stað í jarðskorpunni en um leið mjög staðbundin segir Kristín enn fremur.

Kristín Jónsdóttir, fag­stjóri nátt­úru­vá­r hjá Veður­stof­unni.
Kristín Jónsdóttir, fag­stjóri nátt­úru­vá­r hjá Veður­stof­unni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fylgst er grannt með stöðu mála á Reykjanesinu á Veðurstofu Íslands en að sögn Kristínar hefur dregið heldur úr virkninni nú þegar þetta er skrifað upp úr 6:30.

Tilkynning frá Veðurstofu Íslands: Um kl. 5:20 í morgun jókst virknin við Fagradalsfjall, syðst í ganginum. Óróahviða mælist nú á svæðinu en dregið hefur úr henni. Virknin er mjög staðbundin syðst í ganginum og er líklega til marks um stækkun gangsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert