Ólíklegt að kvika muni koma upp

Sprungur hafa myndast þvert á Suðurstrandarveg í skjálftunum.
Sprungur hafa myndast þvert á Suðurstrandarveg í skjálftunum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég á satt að segja ekki von á neinni kviku upp á yfirborðið á þessu svæði. Eldvirkni þarna hefur verið mjög lítil mjög lengi. Það er ekkert sérstaklega líklegt að þarna verði gos.“

Þetta tjáði Sigmundur Einarsson blaðamanni föstudaginn 5. mars.

Tveimur dögum áður höfðu yfirvöld gefið út viðvörun um að svokallaður óróapúls hefði mælst og að gos gæti verið í vændum. Meiri órói átti eftir að mælast auk snarpra skjálfta, nú síðast á sunnudag með skjálfta af stærðinni 5,4.

Þessi hamagangur gerði það meðal annars að verkum að ekki náðist að klára viðtalið fyrr en loks í dag. Viðmælandinn er þó sem fyrr á þeirri skoðun að líklegast sé að virkni undanfarinna vikna muni hjaðna og fjara út.

Sigmundur er jarðfræðingur og býr að áratuga reynslu af jarðfræðirannsóknum á Íslandi. Á áttunda áratugnum vann hann að kortlagningu á jarðfræði Reykjanesskagans og er það sem heita má sérfræðingur um eldvirkni á skaganum.

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga eru lituð bleik og flekaskilin rauð. Jarðhitasvæði …
Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga eru lituð bleik og flekaskilin rauð. Jarðhitasvæði eru gul. Sprungusveimar Hengils til norðausturs, og Reykjaness til suðvesturs, eru svartir. Kort/Náttúruvá á Íslandi

Brennisteinsfjöll líklegri

„Ég myndi frekar ímynda mér að þessi skjálftahrina fjari bara út. Síðan gæti komið goshrina hvenær sem er, og kannski frekar austur í Brennisteinsfjöllum. Svo gætum við séð skjálftahrinur á svæðinu frá Krýsuvík og austur undir Hellisheiði og að Hveragerði,“ segir hann.

„Það er sem sagt svæði sem hefur ekki hreyfst – eftir að Suðurlandsskjálftarnir hófust árið 2000, þá er enn þá dauður blettur þarna. Stór skjálfti á því svæði myndi hrista okkur sæmilega hér í Reykjavík.

Svo er annað mál, og það er að lengst er síðan gaus í Brennisteinsfjöllum af þessum eldvirknissvæðum á skaganum. Verði önnur goshrina á Reykjanesskaga þá hefði ég haldið að þar hæfust leikar. En þá erum við um leið komin töluvert nær höfuðborginni, því hraun þaðan runnu niður á Heiðmörk og niður undir Hafnarfjörð. Það eru glettilega stórir hraunflákar með tiltölulega mikla útbreiðslu miðað við það sem gengur og gerist hér á suðvesturhorninu.

Auðvitað kemur að því að það gýs á Reykjanesskaga, hvar og hvenær vitum við ekki. Það munu koma fleiri skjálftar og stærri. En við verðum bara að bíða og vona að þetta fari vel.“

Gos á 20. öld yfirleitt lítil

Sigmundur Einarsson jarðfræðingur.
Sigmundur Einarsson jarðfræðingur.

Jarðvísindamönnum hefur verið tíðrætt um það, að ef gos kæmi upp þá yrði það lítið og ef til vill skammvinnt.

Á hvaða gögnum byggir sú spá?

„Þá er tekið mið af því að sú goshrina, sem færi af stað, yrði svipuð og þær goshrinur sem orðið hafa síðustu árþúsund á Reykjanesi, á Krýsuvíkursvæðinu og uppi í Brennisteinsfjöllum. Þær stóðu sennilega í nokkra áratugi og öllum fylgdi nokkur fjöldi tiltölulega lítilla gosa.“

Sigmundur bendir einnig á að á 20. öld hafi gos á Íslandi og við landið yfirleitt verið lítil.

„Stærstu gos á síðustu öld voru Heklugosið 1947, með 0,8 rúmkílómetra af hrauni, og Surtsey 1963 með um einn rúmkílómetra af gosefnum. Öll önnur voru minni, oft í kringum 0,2 til 0,3 rúmkílómetra – þá er ég að tala um Öskjugos, seinni Heklugosin og svo framvegis, þau voru öll frekar lítil. Ég held að Kröflueldar, með sínum níu gosum, hafi samtals náð 0,35 rúmkílómetrum.“

Mun stærra gos á þessari öld

Á þessu varð breyting eftir aldamót.

„Svo kemur allt í einu á þessari öld Holuhraun, sem er miklu stærra eða upp á tæplega einn og hálfan rúmkílómetra. Það er stærsta gosið sem orðið hefur frá Skaftáreldum á 18. öld.“

Hann bætir við að það gangi aftur á móti ekki mikið á þegar gýs á Reykjanesskaga.

„Ef við skoðum bara gígana frá þessum yngstu gosum þá eru þeir allir pínulitlir. Það er ekki mikil öskumyndun eða aska að setjast í kringum gígana. Þetta er bara allt voða pent – það rennur svolítið hraun, og getur farið ótrúlega langt jafnvel, en þetta er ekki þannig að fólk geti ekki forðað sér og hlaupið.“

Eldgosið í Holuhrauni stóð lengi og glóandi elfurin flæmdist um …
Eldgosið í Holuhrauni stóð lengi og glóandi elfurin flæmdist um stórt svæði. mbl.is/RAX

Tími dyngjanna liðinn?

Dyngjur eru sérstök gerð af eldstöðvum sem í fyrstu atrennu eru skilgreindar með útliti sínu – hringlaga skildir með gíg á toppi. Dyngjugos sem orðið hafa á Reykjanesskaga hafa sennilega í flestum tilvikum byrjað sem sprungugos, að því er segir í bókinni Náttúruvá á Íslandi (2013).

„Virknin færist síðan smám saman í einn gíg og þróast í sígos sem stendur lengi, jafnvel nokkur ár í stærstu dyngjunum. Hraunframleiðsla er talin lítil eða kringum fimm rúmmetrar á sekúndu.“

Myndun dyngja á Íslandi hefur jafnan verið tengd ísaldarlokunum. Flestar eða allar urðu til fyrir meira en sex þúsund árum og hafa vísindamenn talið að þær tengist landrisi eftir að ísaldarjökullinn hvarf. Samt sem áður hefur því verið velt upp hvort að gos við Fagradalsfjall gæti þróast yfir í dyngjugos.

Einn af mörgum mælum sem eiga að nema virkni á …
Einn af mörgum mælum sem eiga að nema virkni á svæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gríðarstór hraundyngja

Fyrst um sinn þótti nefnilega líklegast að gjósa myndi í Þráinsskjaldarhrauni, sem kennt er við dyngjuna Þráinsskjöld norðaustur af Fagradalsfjalli. Hraunið rann fyrir um fjórtán þúsund árum og hefur verið talið nema um fimm rúmkílómetrum, eða á við fimm Surtseyjar ef miðað er við tölur sem áður voru nefndar.

„Gígurinn er þarna norðan við Fagradalsfjall, suðvestur af Keili, og jaðar hraunsins er svo frá Vatnsleysuvík og að Vogastapa. Hraunið myndar í raun alla Vatnsleysuströndina, þannig að þetta er satt að segja gríðarstór hraundyngja,“ segir Sigmundur.

„Svo tekur við önnur hraundyngja frá Vatnsleysuströndinni og inn að Straumsvík.“

Einmitt vegna þessarar sögu hefur möguleikinn á dyngjugosi komið til tals.

„Þetta er vissulega inni á svæði þar sem dyngjugos hafa orðið og gæti auðvitað þróast yfir í það. Skýringin er svolítið langsótt en hún er þó ekki verri en einhver önnur.“

Steinþagað frá því ísöld lauk

„Það sem ég hef verið að halda fram er að akkúrat þarna við Keili og suður úr, þar hefur nánast ekki gosið síðastliðin tíu þúsund ár. Gosin síðustu árþúsundin eru nánast bundin við nokkrar sprungu- eða gosreinar, sem hafa verið kenndar við Reykjanes, Svartsengi, Krýsuvík og Brennisteinsfjöll. En þarna, við Fagradalsfjall, hefur nánast ekki verið nein eldvirkni sem heitir undanfarin tíu þúsund ár.

Þó hraun hafi runnið þangað úr öllum áttum þá hefur ekki gosið á svæðinu sjálfu á þessum tíma. Reyndar er vitað að það gaus þar fyrir fjörutíu þúsund árum, undir jökli, en það er það síðasta sem er eiginlega tímasett. Svo eru bara einhver minni háttar sprungugos.

Það hefur ekki verið eldvirkni þarna þrátt fyrir að menn hafi túlkað Fagradalsfjall, þann klasa, sem eins konar gosrein. En hún hefur bara steinþagað frá því ísöld lauk, það er síðustu tíu þúsund árin. Þess vegna er afar ólíklegt að það fari að gjósa þar núna, það er ekki í takti við það sem hefur verið að gerast í jarðeldum á skaganum undanfarin árþúsund. Þetta er utan þess ramma.

Dyngjugos hafa ekki heldur orðið síðastliðin árþúsund, það er svolítið lengra síðan, en þau sem hafa orðið raða sér á ákveðinni línu eftir skaganum endilöngum.“

Þráinsskjöldur og hraunið sem rann úr dyngjunni.
Þráinsskjöldur og hraunið sem rann úr dyngjunni. Jarðfræðikort af Reykjanesskaga/Jón Jónsson

Koma af tuttugu kílómetra dýpi

En hvað er það sem ræður því hvort gos verði dyngjugos eður ei?

„Hraunin sem koma í dyngjugosin koma af miklu meira dýpi, kannski af tuttugu kílómetra dýpi, á meðan önnur gos koma yfirleitt af tíu kílómetra dýpi. Dyngjugos tengjast heldur ekki beint gliðnun og sprungum, sem hin gera. Það er kannski grundvallarmunurinn.

Menn kunna svo sem ekki nákvæmar skýringar af hverju þau koma svona einstaka sinnum. En meiriháttar dyngjugos, þau urðu flest fljótlega eftir að ísöld lauk. Síðan hefur verið frekar lítið um þau.

Skjaldbreiður er kannski flottasta dæmið um svoleiðis,“ segir hann.

„Fanna skautar faldi háum – fjallið, allra hæða val,“ orti …
„Fanna skautar faldi háum – fjallið, allra hæða val,“ orti Jónas Hallgrímsson um Skjaldbreið. mbl.is/RAX

Skjaldbreiður er 1.060 metra há dyngja sem myndaðist fyrir um níu þúsund árum í löngu gosi, því sama og myndaði umgjörð Þingvallavatns. Á toppi hans er mikill og djúpur gígur, um 300 metrar að þvermáli og um 50 metra djúpur.

Yrði mikil breyting

Þegar dyngjugos verða undir jökli þá myndast oftast móberg og stapar.

„Fagradalsfjallið sjálft er slíkt fyrirbæri,“ bendir Sigmundur á.

„Á því svæði eru gríðarleg merki um jarðskjálfta og opnar jarðskjálftasprungur, en afskaplega lítið um gossprungur. Þær vantar ekki alveg – það hafa orðið nokkur smágos þar á síðustu árþúsundum, en ekkert í líkingu við allt annað.

Ef það færi því að gjósa þarna, suður af Keili, þá myndi ég jafnvel líta á það sem fasabreytingu í eldvirkni á skaganum. Það væri töluvert mikil breyting frá því sem hefur verið í gangi síðustu árþúsundin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert