Eldgos hafið við Fagradalsfjall

Himinninn er rauður yfir Reykjanesskaga.
Himinninn er rauður yfir Reykjanesskaga. Ljósmynd/Víkurfréttir

Eldgos er hafið við Fagradalsfjall. Þetta staðfestir vakthafandi veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í samtali við mbl.is.

Á beinu streymi úr myndavél sem beint er yfir Reykjanesið má greina roða í himninum yfir Fagradalsfjalli.

Litakóði fyrir flugumferð er núna rauður. Þyrla Landhelgisgæslunnar er á leiðinni í loftið, en hún mun bera tvo vísindamenn að sögn upplýsingafulltrúa.

Mikilvægt að fólk haldi kyrru fyrir

„Það er búið að virkja samhæfingarstöð og verið að meta aðstæður. Það er mjög mikilvægt að fólk haldi kyrru fyrir, fylgist bara með fréttum í sjónvarpinu núna á meðan þetta er að byrja og verið er að ná utan um þetta,“ segir Davíð Már Bjarnason, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is um viðbúnað björgunarsveitanna.

„Það er búið að loka öllum helstu leiðum af svæðinu þannig að fólk kemst ekkert voðalega nálægt. Mikilvægt að fólk haldi sig til hlés fyrstu klukkutímanna og svo verður fólki gert kleift að sjá þetta þegar að því kemur,“ bætir hann við.

Fyrsta tilkynning barst 21.40

Veðurstofunni barst tilkynning um gosið klukkan 21.40 í kvöld og í framhaldinu var staðfest að um gos væri að ræða í gegnum vefmyndavélar og gervitunglamyndir að því er fram kemur á vef Veðurstofunnar. Lítill órói sást á mælum.

Eldgosið séð frá Grindavík.
Eldgosið séð frá Grindavík. Mynd/Sólný Pálsdóttir
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert