Smitið utan sóttkvíar tengist gosstöðvunum

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur áhyggjur af því að kórónuveirusmitið sem greindist utan sóttkvíar í gær tengist gosstöðvunum í Geldingadölum. Viðkomandi fór þangað í hóp nýverið en ekki er vitað hvort hann hafi smitast þar. 

„Þegar maður sér þennan gríðarlega fjölda sem er að fara á gosstöðvarnar eftir litlum stígum þá er full ástæða finnst mér til að hafa áhyggjur af smiti sem getur brotist þar út, bæði á meðal Íslendinga og svo útlendinga sem þar eru,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is. 

Hann telur fulla ástæðu til þess að hvetja fólk til að fara mjög varlega í kringum gosstöðvarnar.

„Og helst bara bíða með að fara á gosstöðvarnar þar til aðeins frá líður og faraldurinn hefur náðst niður vegna þess að ég held að þetta gos sé ekkert að fara svo fólk er ekki að missa af neinu,“ segir Þórólfur.

Er talið að viðkomandi hafi smitast í Geldingadölum? 

„Það er eiginlega ómögulegt að segja, við getum ekki rakið smitið, hvaðan það kemur.“

Nokkur fjöldi fólks fór í sóttkví vegna smitsins.

Merki um að smitið sé komið víðar

95 eru nú í einangrun hérlendis vegna Covid-19 en þar á meðal eru einhver landamærasmit. Spurður hvort innanlandssmitin sem virk eru núna séu mjög útbreidd segir Þórólfur:

„Þetta tengist náttúrlega grunnskólunum hérna á höfuðborgarsvæðinu. Flestir eru komnir í sóttkví. Vonandi verður svo áfram að þeir sem eru að greinast séu í sóttkví. En það er náttúrlega áhyggjuefni að þetta sé að greinast fyrir utan þann hóp, það er merki um að þetta sé komið eitthvað víðar.“

Erfitt að eiga við einbeittan brotavilja

Í morgun bárust fréttir af því að enn séu fjölmörg dæmi þess að fólk sé sótt á Keflavíkurflugvöll í einkabílum, jafn­vel þótt fimm daga sótt­kví sé skyldu­bund­in fyr­ir alla sem koma inn í landið án þess að hafa þegar fengið Covid-19 eða bólu­setn­ingu. 

„Ég held að menn séu að reyna að gera eins og hægt er í eftirlitinu á Keflavíkurflugvelli. Það er erfitt að eiga við það ef fólk er með einbeittan brotavilja. Það eru margar leiðir fyrir fólk til að brjóta á þessu,“ segir Þórólfur spurður um þetta.

„Ég vil náttúrlega bara hvetja fólk til að hugsa út í það hvað það er að gera og hjálpa okkur öllum að reyna að stemma stigu við þessu eins og mögulegt er.“

Fréttin hefur verið uppfærð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert