Uppsöfnun gass getur orðið hættuleg

Það er öruggast að horfa til eldstöðva með vindinn í …
Það er öruggast að horfa til eldstöðva með vindinn í bakið. Mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

Spáð er norðan og norðvestan 5-10 m/s fyrri hluta dagsins en hægri vestlægri eða norðvestlægri átt síðdegis og í kvöld með dálítilli snjókomu eða slyddu á gosstöðvunum á Reykjanesi. Nægilega hægur vindur svo uppsöfnun gass geti orðið hættuleg nærri gosstöðvum en ekki líklegt að mengunar verði vart í byggð að því er segir á vef Veðurstofu Íslands.

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur boðað til upplýsingafundar klukkan 11 í dag þar sem farið verður yfir stöðu mála varðandi eldgosið á Reykjanesskaga. Ýmsar spurningar hafa komið upp varðandi gasmengun sem berst frá gosstöðinni, bæði í byggð og á staðnum. Einnig almennt um hvernig fólk ber sig að við eldgos, áhrif gosmengunar á heilsu fólks og hættur sem ber að varast.

Á fundinum verða Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarna, Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun, Elín Björk Jónasdóttir, hópstjóri veðurþjónustu Veðurstofu Íslands, Magnús Tumi, jarðeðlisfræðingur frá HÍ, og Gunnar Guðmundsson lungnalæknir.

Samkvæmt upplýsingum af Facebook-síðu lögreglunnar á Suðurnesjum getur gasmengun við gosstöðvarnar alltaf farið yfir hættumörk, mökkurinn leggst undan vindi og því öruggast að horfa til eldstöðva með vindinn í bakið.

  • Í hægviðri (<5 m/s) getur gas safnast fyrir í dalnum, þá stjórnast vindafar af landslagi og gas getur verið yfir hættumörkum langt upp í hlíðar, allan hringinn í kringum gosstöðvarnar. Í slíkum tilfellum þurfa áhorfendur að færa sig upp á fjöll og hryggi en ekki halda sig í brekkunum fyrir ofan.
  • Velja þarf gönguleið eftir vindaspá hverju sinni.
  • Forðast skal að taka hunda með sér að gosstöðvunum. Hundar eru berskjaldaðri fyrir mengun vegna gass þar sem þeir eru nær jörðu. Einnig getur flúor leynst í pollum sem hundar drekka úr.

Vísindaráð almannavarna hittist á fundi í gær og þar var farið yfir skjálftagögn og mælingar á aflögun auk framgangs gossins, dreifingu hrauns, framleiðslu gosefna og þeirri mengun sem fylgir eldgosinu.

Þá voru ræddar þær hættur sem snúa að fólki sem sækir gosstöðvarnar heim og hvaða svæði væru hættulegust með tilliti til mögulegrar opnunar á nýjum sprungum, hraunflæðis og gasmengunar.

Hraun rennur frá öllum sprungunum þremur og fer það niður …
Hraun rennur frá öllum sprungunum þremur og fer það niður í Meradali og Geldingadali. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Mesta skjálftavirknin á þeim tíma sem liðinn er frá síðasta fundi er norðarlega í kvikuganginum og nær að Keili. Við Litla-Hrút mælast grunnir skjálftar og er fylgst vel með þeirri virkni. Lítil aflögun mælist á Reykjanesskaganum en merki um breytingar komu fram við nýjar gossprungur sem opnuðust annan í páskum og aðfaranótt þriðjudags.

Breytingarnar eru mjög litlar og fyrirboðar áður en sprungurnar opnast ekki greinanlegir. Vísbendingar eru um að á svæðinu frá sunnanverðum Geldingadölum og NA fyrir gossprungurnar liggi kvika grunnt og ekki hægt að útiloka að fleiri gossprungur geti opnast á næstu dögum eða vikum.

Hraun rennur frá öllum sprungunum þremur og fer það niður í Meradali og Geldingadali. Við opnun á fleiri sprungum og auknu hraunflæði má leiða líkur að því að magn gass frá gosstöðvunum gæti hafi aukist miðað við það sem áður var þegar einungis gaus í Geldingadölum.

Mesta afgösunin kemur frá gígunum en mun minna frá hraunrennslinu sjálfu. Mikil mengun mælist í kringum gosstöðvarnar, en utan hennar dvínar hún hratt. Veðurstofan hefur sett upp tvo síritandi gasmæla, annan við gönguleið A og hinn í Meradölum.

Veðurstofan mun vinna heildarhættumat fyrir svæðið þar sem tekið er á hættu vegna hraunrennslis, gasmengunar og möguleika á myndun nýrra gossprungna. Opnun nýrrar gossprungu án sjáanlegra undanfara gæti valdið bráðri hættu fyrir fólk. Svæðið sem þessi hætta nær til er talið vera þar sem kvikan náði næst yfirborði eða frá SV-hluta Geldingadala NA að Litla-Hrúti.



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert