Verður ekki hljóðlaust

Létt var yfir Bjarna Benediktssyni, Katrínu Jakobsdóttur og Sigurði Inga …
Létt var yfir Bjarna Benediktssyni, Katrínu Jakobsdóttur og Sigurði Inga Jóhannssyni þegar stjórnin var mynduð haustið 2017. Eggert Jóhannesson

„Það er alls ekki sjálfgefið en haldi stjórnin áfram verður það ekki hljóðlaust,“ segir Grétar Þór Eyþórsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, spurður hvaða stjórnarmynstur sé líklegast eftir alþingiskosningarnar í haust. 

„Gleymum því ekki að þetta er mjög óvenjulegt mynstur og ýmislegt á eftir að ganga á innanhúss hjá flokkunum áður en þeir samþykkja að halda þessu samstarfi áfram, jafnvel þótt menn telji sér hafa gengið vel. Það á ekki síst við um VG en Sjálfstæðisflokkinn líka. Þessir flokkar nálgast þjóðmálin hvor úr sinni áttinni sem hefur kallað á miklar málamiðlanir. Báðir flokkar hafa þurft að gefa eftir hluti og slá af sínum prinsippum til að ná árangri á öðrum sviðum. Það hefur reynt á þolrifin,“ segir Grétar Þór.

Hann nefnir árangur VG í umhverfismálum sem dæmi en hann sé óumdeildur en öðru hafi verið fórnað í staðinn og á endanum verði menn að setjast niður og vega og meta hvort það hafi verið þess virði.

Starfhæf ríkisstjórn

Stefanía Óskarsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, segir menn hafa lagt áherslu á stjórnfestu og málamiðlanir við myndun ríkisstjórnarinnar árið 2017; allt kapp hafi verið lagt á að setja saman „starfhæfa ríkisstjórn“. Henni kæmi ekki á óvart þótt sama orðræða yrði aftur uppi á teningnum nú. „Það var stór biti að kyngja fyrir bæði VG og Sjálfstæðisflokkinn að fara í samstarf fyrir fjórum árum. Þetta samstarf virðist á hinn bóginn hafa gengið nokkuð vel og hvers vegna að hætta einhverju sem er að virka?“

Spurð hvort hún telji núverandi mynstur þá líklegast áfram svarar Stefanía: „Það er líklegast en flokkarnir verða þó að halda áfram vel á spöðunum, sérstaklega ef það byrjar að rakna upp úr samstöðunni vegna sóttvarnaaðgerða. Verði Svandís [Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra] að einhverju leyti látin sitja í súpunni gæti það valdið óróa innan VG. Enginn veit þó hvernig þau mál þróast og mögulega verður allt annað andrúmsloft í haust, þegar bólusetning verður orðin almennari og ferðaþjónustan ef til vill byrjuð að ná sér aðeins á strik.“

Sögulega hafa Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur iðulega verið tilkippilegir þegar mynda þarf stjórn. Sama á ekki við um VG og forvera hans en Stefanía segir öðru máli gegna í dag. „VG finnur greinilega til ábyrgðar og er búinn að færa sig í ákveðið miðjuhlutverk í íslenskum stjórnmálum – sem maður hefði ekki trúað fyrir fram,“ segir Stefanía.

Katrín nýtur vinsælda

Þrátt fyrir að hafa mestan þingstyrk allra flokka á yfirstandandi þingi gaf Sjálfstæðisflokkurinn forsætisráðuneytið eftir við myndun stjórnarinnar fyrir fjórum árum. Væri hann reiðubúinn að gera það aftur, héldi stjórnin áfram í óbreyttri mynd?

„Það er mjög stór spurning,“ svarar Grétar Þór. „Það var ekki auðvelt fyrir flokkinn að gefa stól forsætisráðherra eftir einu sinni og gera má því skóna að enn þá erfiðara yrði að gera það öðru sinni. Verði sama stjórnarmynstur í kortunum mun þrýstingur á Bjarna Benediktsson án efa verða mikill en allar líkur eru á því að Sjálfstæðisflokkurinn verði áfram stærsti flokkurinn á þingi og mun stærri en VG.“

Á móti kemur að kannanir benda til þess að Katrín Jakobsdóttir njóti almennrar hylli sem forsætisráðherra. „Hún nýtur mikilla vinsælda, langt út fyrir raðir síns eigin flokks og fólk virðist treysta henni. Það styrkir stöðu Katrínar komi til viðræðna um forsætisráðherrastólinn,“ segir Grétar Þór sem sér Katrínu fyrir sér sækjast eftir öðru embætti þegar fram líða stundir – embætti forseta Íslands. „Nú veit ég ekki hvort hún hefur áhuga á því yfir höfuð en mér kæmi ekki á óvart þótt hún yrði í kjöri þegar Guðni Th. Jóhannesson lætur staðar numið, hvort sem það verður að loknu yfirstandandi kjörtímabili eða því næsta.“

Stefanía segir engan vafa leika á því að Katrín komi áfram til með að sækjast eftir embætti forsætisráðherra og í ljósi vinsælda hennar og traustsins sem hún virðist njóta langt út fyrir sinn flokk gæti orðið erfitt fyrir Bjarna að hrófla við henni, sækist hann á annað borð eftir því, óháð því hvað flokksmönnum hans kann almennt að finnast.

Nánar er spáð í alþingiskosningarnar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert