Yfir 20 smit í gær

Röð í skimun vegna Covid-19 við Suður­lands­braut 34.
Röð í skimun vegna Covid-19 við Suður­lands­braut 34. mbl.is/Kristinn Magnússon

Runólfur Pálsson, yfirlæknir Covid-deildar Landspítalans, segir að yfir 20 smit hafi greinst í gær. Þetta kom fram í viðtali við hann í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun. Hann gat ekki sagt nákvæmlega til um fjölda smita né heldur hversu margir þeirra voru í sóttkví aðeins að meirihluti hafi verið í sóttkví. Hann segist vonast til þess að sem flestir hafi verið í sóttkví. Þetta sé stórt hópsmit sem hæglega getur orðið stærra.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir í viðtali við Rás 2 að Íslendingum hafi gengið ágætlega að halda utan um stöðuna undanfarna 12-13 mánuði en það hafi náðst með skerðingum á persónufrelsi fólks sem sé farið að pirra fólk dálítið. Hann telur að menn séu ekki mjög ákafir í að herða skrúfuna að nýju en það er mat Kára að það sé lífsnauðsynlegt.

„Það sem er merkilegast í þessu öllu saman er að við getum náð utan um þetta ef við myndum vakta landamærin eins og gera skyldi,“ segir Kári í viðtali við Sigmar Guðmundsson í Morgunútvarpinu. 

Kári segir að hægt sé að rekja hópsýkinguna á leikskólanum Jörfa til einstaklings sem ekki virti sóttkví. Hann segir að ekki liggi fyrir raðgreining þeirra smita sem greindust í gær þannig að ekki sé vitað á þessari stundu hvort smitin í gær tengist því. Raðgreining muni væntanlega liggja fyrir í kvöld. 

Einmana lítill héraðsdómari

Að sögn Kára verður annaðhvort að herða reglunar til muna á landamærunum eða koma því þannig fyrir að fólki standi ekki annað til boða en að virða sóttkví. Sóttvarnayfirvöld hafi reynt að gera það með setningu reglugerðar sem kvað á um að setja mætti fólk frá ákveðnum löndum í sóttvarnahús.

„Það var einmana lítill héraðsdómari sem kvað úr um að það væri ekki í samræmi við lög sem nýbúið var að setja,“ segir Kári og segir að það sé nú í höndum Alþingis að setja lög sem séu það skýr að jafnvel einmana menn úti í horni skilji þau. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert