Elliði kominn í sóttkví

Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss.
Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss. Ljósmynd/Aðsend

Enginn þeirra 200 sem mættu í skimun fyr­ir kór­ónu­veirunni í grunn­skól­an­um í Þor­láks­höfn á þriðjudag reyndist vera með Covid-19. Fjórtán eru smitaðir í Þorlákshöfn og 99 eru í sóttkví. Þar á meðal er Elliði Vignisson bæjarstjóri.

Einn einstaklingur í Þorlákshöfn greindist með Covid-19 á miðvikudag en það smit hefur ekki áhrif á skólastarfið. Þar var um að ræða einstakling sem var í sóttkví og smitið rakið til hópsmits á vinnustað að því er segir í færslu Elliða á Facebook í gærkvöldi.

Fjórtán íbúar Þorlákshafnar eru í einangrun og 99 eru í sóttkví. Í dag klukkan 9 verða þeir nemendur og starfsfólk sem verið hafa í sóttkví skimaðir í grunnskólanum í Þorlákshöfn.

„Við erum öll bjartsýn á að samstaðan og krafturinn sem íbúar hafa, allir sem einn, sýnt, verði nú til þess að strax á mánudag getum við tekið upp hefðbundið starf um allan bæ og þar með í okkar mikilvægu stofnunum svo sem grunn- og leikskóla. Vissulega verða einhverjir bæjarbúar, og þar með talið nemendur þó áfram í sóttkví eða einangrun með sínum fjölskyldum,“ segir Elliði í opinni færslu á Facebook.

„Þó að það sé nú smá mál í þessu öllu saman er það af mér að frétta að ég er kominn í sóttkví. Það er ef til vill gráglettni örlaganna að eftir okkar samhug í baráttunni hér í Þorlákshöfn þá skuli það vera smit tengt kennslustund hjá henni Berthu minni í FSU á Selfossi sem sendir mig í sóttkvína.

Sjálfum þykir mér nú nóg um en ég er hér með búinn að fara í skyldaða sóttkví með öllum í minni fjölskyldu. Fyrst með Bjartey Bríet Elliðadóttur, svo með Nökkva Dan Elliðasyni og nú með henni Berthu Johansen. Þetta er sem sagt þriðja sóttkvíin mín og ég því kominn með góða reynslu,“ segir Elliði. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert