Sjúkraþjálfarar stressaðir yfir löngum biðlistum

Biðlistar í sjúkraþjálfun hafa verið að lengjast.
Biðlistar í sjúkraþjálfun hafa verið að lengjast. mbl.is/Kristinn Magnússon

Dæmi er um þriggja mánaða bið eftir því að komast að hjá sjúkraþjálfara. Hjá stórri sjúkraþjálfarastofu er 300 til 400 manna biðlisti. Þetta segir Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara.

Aðspurð segir hún það fara eftir stofum, staðsetningu, sérhæfingu og sjúkraþjálfurum hversu löng bið er eftir aðstoð. Stofur reyna að forgangsraða eftir alvarleika meinsins og meta hverjir þurfa strax á þjónustu að halda, meðal annars eftir liðskiptaaðgerðir. Staðan er engu að síður snúin.

„Það var fullyrt við mig fyrir ekki löngu að mesti stressþáttur sjúkraþjálfara væru biðlistarnir og það álag sem fylgir því að vita að það eru fleiri hundruð manns að bíða eftir þeirra þjónustu,“ greinir Unnur frá og segir að svo virðist sem eftirspurnin eftir sjúkraþjálfun sé „endalaust að aukast“.  

mbl.is/Kristinn Magnússon

Dýrt fyrir heilbrigðiskerfið 

Spurð út í afleiðingarnar af þessari stöðu segir hún ekkert dýrara í heilbrigðiskerfinu en að láta fólk bíða. Það hafi í för með sér vinnu- og færnitap fyrir marga. Einnig þýði það að þegar fólkið kemst loksins að hjá sjúkraþjálfara þurfi það oft á meiri og dýrari þjónustu að halda.

„Heilsuhagfræðilegar rannsóknir hafa allar sýnt að með því að svelta eða vanrækja grunnþjónustu sem er ódýr, þ.e. þjónustu á borð við sjúkraþjálfun, þá er miklu meiri tilhneiging til þess að viðkomandi lendi seinna í heilbrigðiskerfinu og þurfi á dýrari úrræði að halda,“ segir hún og á þar við lyfjagjafir og skurðaðgerðir.

Fyrstu árgangarnir yfirgefa vinnumarkaðinn

Í ákvæði í reglugerð heilbrigðisráðuneytisins, sem tók gildi 1. janúar og átti að renna út í dag, kemur fram að nýútskrifaðir sjúkraþjálfarar geta ekki farið beint til starfa á einkarekna stofu heldur þurfa þeir að sækja starfsreynslu annað fyrst. Félag sjúkraþjálfara sendi bréf til heilbrigðisráðherra í síðustu viku þar sem skorað var á ráðuneytið að afnema ákvæðið.

Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara.
Unnur Pétursdóttir, formaður Félags sjúkraþjálfara.

Unnur býst við því að ráðuneytið framlengi reglugerðina um tvo mánuði, eða til 30. júní. Hún segir ákvæðið í henni gera það að verkum að nýliðun hefur minnkað og kemur það á versta tíma því í ár eru 40 ár síðan fyrsti árgangur sjúkraþjálfara útskrifaðist úr Háskóla Íslands. Fyrstu árgangarnir eru því að fara af vinnumarkaði sökum aldurs. Hún nefnir að hingað til hafi þeir sem útskrifast verið viðbót en núna sé það að breytast.

„Hinir nýju geta ekki komið til starfa á stofurnar strax og við sjáum núna því miður fram á að biðlistar lengist, sem er afleitt, því það er bara kostnaður bæði fyrir fólk og þjóðfélag að sinna ekki þeim heilsufarsvanda sem fyrir hendi er,“ segir hún.

Viðkvæm staða á landsbyggðinni 

Unnur kveðst einnig hafa miklar áhyggjur af löngum biðlistum á landsbyggðinni. Hún segir landsbyggðina viðkvæmari fyrir þeirri breytingu sem hafi orðið því hingað til hafi hún treyst á nýútskrifaða sjúkraþjálfara. Þeir hafi flutt heim að loknu námi en hugsi sig tvisvar um núna.

Sjúkratryggingar Íslands.
Sjúkratryggingar Íslands. mbl.is/Hjörtur

Brugðið getur til beggja vona

Viðræður sjúkraþjálfara við Sjúkratryggingar Íslands standa yfir vegna verksamnings um þjónustu. Stjórnvöld vilja hverfa frá heildarsamningi við hagsmunafélag viðkomandi stétta og semja um þjónustuna beint við fyrirtæki sjúkraþjálfara um að veita fyrirfram ákveðið magn þjónustu.

Spurð út í gang viðræðnanna segir Unnur samtal vera í gangi og að brugðið geti til beggja vona. Ekki hjálpi til að fjármunirnir sem á að setja í kerfið séu takmarkaðir. „Það er svo mikilvægt að fólk átti sig á því hversu mikilvægt er að byrja á grunninum sem er ódýr til að forða fólki frá því að fara upp píramídann og í dýru úrræðin,“ bendir hún á.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert