Hraunsletturnar 5 til 15 sentimetrar í þvermál

Eldtungurnar í Geldingadölum.
Eldtungurnar í Geldingadölum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vísindamenn Veðurstofu Íslands hafa reiknað út hversu hratt og langt hraunsletturnar fara sem berast úr eldgosinu í Geldingadölum. Þessir útreikningar hafa verið sendir til yfirlestrar hjá öðrum eldfjallafræðingum og almannavörnum. Þvermál hraunslettanna er 5 til 15 sentimetrar.

„Það er búið að taka tillit til mismunandi aðstæðna á gossvæðinu,“ segir Elín Björk Jónasdóttir, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Vís­inda­menn á Veður­stof­unni sendu frá sér til­lögu í gær um að hættu­svæði yrði miðað við 500 metra radíus frá gos­inu.

Gæti breyst eftir veðri

Í tengslum við hraunsletturnar hefur verið reiknaður út radíus út frá virka gígnum, annars vegar miðað við logn og hins vegar þegar hvasst er í veðri. Það er svo í höndum lögreglustjórans á Suðurnesjum að ákveða næstu skref varðandi mögulega stækkun hættusvæðisins.

Elín Björk segir það vera í höndum lögreglustjórans að ákveða hvort hann miðar alltaf við stærra svæðið í útreikningunum eða hvort hann breytir hættusvæðinu eftir veðri. Stærra svæðið myndi stækka hættusvæðið frá því sem er nú er og skera í bestu útsýnisbrekkuna sunnan megin við eldgosið. Minna svæðið er aftur á móti álíka stórt.

Viðbragðsaðilar funda klukkan 9 í fyrramálið og má þá búist við að næstu skref verði ákveðin.

Björgunarsveitarmenn á gossvæðinu í síðasta mánuði.
Björgunarsveitarmenn á gossvæðinu í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Bakka með línuna“

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, segir að „bakkað verði með línuna“ þangað til niðurstaða fæst úr fundinum í fyrramálið og á hann þar við hversu langt fólk má ganga í átt að eldgosinu.

Björgunarsveitarmenn verða á vaktinni í kvöld eins og undanfarna virka daga frá klukkan 18 til 23. Fram að því þarf fólk að hringja eftir aðstoð ef það lendir í óhappi á ferðalagi sínu til og frá gossvæðinu. Aðspurður segir hann engan hafa óskað eftir aðstoð það sem af er degi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert