Ísland aftur grænt

Ísland er eina algræna landið, en hluti Noregs og Finnlands …
Ísland er eina algræna landið, en hluti Noregs og Finnlands eru það einnig. Kort/Sóttvarnastofnun Evrópu

Ísland er grænt á ný á uppfærðu korti Sóttvarnastofnunar Evrópu sem birt var í gær og sýnir stöðu kórónuveirufaraldursins í löndum Evrópu.

Nýgengi smita á Íslandi, fjöldi greindra smita síðustu 14 daga á hverja 100.000 íbúa, er nú 18,8 en til að teljast grænt þarf nýgengið að vera undir 25 og hlutfall jákvæðra sýna að vera undir 4 prósentum.

Nokkur fjöldi Evrópulanda notast við litakóðunarkerfi sóttvarnastofnunarinnar þegar kemur að ferðatakmörkunum.

Auk Íslands eru hluti Noregs og stærstur hluti Finnlands græn, en önnur ríki álfunnar eru ýmist rauð, dökkrauð eða gul sem er til marks um verri stöðu faraldursins.

Færeyjar og Grænland eru ekki með í þessari samantekt enda utan Evrópska efnahagssvæðisins, en þau væru þó bæði græn. Ísland hafði verið grænt um nokkurt skeið þar til smitum fjölgaði nokkuð í byrjun apríl og hefur landið verið appelsínugult síðan, þar til nú.

Í flestum löndum er nýgengi veirunnar vel yfir 100. Verst er staðan á Kýpur, 798, en að Íslandi undanskildu er staðan skást á Möltu, 52.

Nýgengi í völdum ríkjum

  • Svíþjóð 558
  • Danmörk 200
  • Noregur 109
  • Finnland 53
  • Færeyjar 10
  • Þýskaland 274
  • Pólland 192
  • Frakkland 415
  • Ítalía 249
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert