Byrjað að bólusetja ungmenni

mbl.is/Kristinn Magnússon

Byrjað er að bólusetja ungmenni á aldrinum 16 til 18 ára sem munu starfa með börnum í sumar með bóluefni Pfizer. Lítið er vitað um afhendingu á AstraZeneca-bóluefninu fram í tímann. 

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að mjög lítið sé vitað um hversu mikið magn af AstraZeneca-bóluefninu muni berast á næstu vikum og aðeins í þessari viku sem skráð hefur verið afhending á því á dagatal stjórnvalda um afhendingar á bóluefnum. Þar kemur fram að í viku 21 sé von á 10.560 skömmtum af bóluefni AstraZeneca og 2.880 skammtar af Janssen eru væntanlegir í sömu viku, það er í þessari viku en til bólusetningar í næstu viku.

Þórólfur segir að AztraZeneca hafi einnig verið að breyta sínum áætlunum þannig að lítið sé hægt að segja um það þar sem yfirleitt er aðeins vitað nokkra daga fram í tímann varðandi komu þess hingað til lands.

Á við um allt land

Á sama tíma er von á rúmlega 14 þúsund skömmtum af bóluefni Pfizer í viku 21 og um 20 þúsund skammtar í hverri viku þangað til í byrjun júlí.

Líkt og fram kom í síðustu viku er byrjað að bólusetja 16-18 ára sem sveitarfélögin benda á að muni vinna með börnum í sumar líkt og starfsmenn leikskóla og frístundaheimila. Ungmennin fá Pfizer-bóluefnið en það er eina bóluefnið sem er með markaðsleyfi hér á landi fyrir þennan aldurshóp líkt og annars staðar í Evrópu. Hann segist ekki vita nákvæmlega hversu margir í þessum aldurshópi hafi þegar fengið bólusetningu en þetta eigi við um allt land. 

Búið er að fullbólusetja um 10 þúsund á aldrinum 16-29 ára eða 13,39% af aldurshópnum. Hálfbólusett eru um sjö þúsund í þessum aldurshópi eða um 10%.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert