Sýnist stjórnarskrárfrumvarpið sjónarspil Katrínar

Undirskriftir afhentar Katrínu Jakobsdóttur vegna nýrrar stjórnarskrár. Myndin var tekin …
Undirskriftir afhentar Katrínu Jakobsdóttur vegna nýrrar stjórnarskrár. Myndin var tekin á síðasta ári. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun var formlega felld tillaga Jóns Þórs Ólafssonar, formanns nefndarinnar, um að taka frumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um breytingar á stjórnarskránni óbreytt út úr nefndinni. Tillagan var felld af stjórnarmeirihluta og Miðflokknum. Niðurstaðan kemur honum ekki á óvart. 

Stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur hefur nú verið á borði stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í rúma fjóra mánuði.

Miðað við núverandi sviðsmynd gerir Katrín þá kröfu að málið verði ekki afgreitt út úr nefndinni nema með algerri sátt.

Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar …
Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Grunaði Jón Þór þá strax að ekki væri raunverulegur vilji fyrir því að ná málinu í gegn en segir nefndina engu að síður hafa unnið sína vinnu. Hann hafi ítrekað bent á að hægt væri að afgreiða málið út úr nefndinni óbreytt, þó ekki væri komin fullkomin sátt um það.

Jón Þór segist hafa fengið á hreint, áður en þinglokasamningum lauk í gær, að sátt myndi ekki nást um málið. Því taldi hann rétt að bera tillöguna formlega upp á fundi í morgun til þess að fá upp á yfirborðið hvar afstaða manna lægi. Hann segir að tillagan hafi þó legið á borðinu í sex vikur án undirtekta svo atkvæðagreiðslan var bara formsatriði.

Hefðu getað afgreitt málið í mars

Jón Þór segir að erfitt sé að tjá sig um stærðargráðu ágreiningsins því ekki hafi verið unnin sú vinna sem þarf til að skapa samstöðu.

Framsögumaður hafi ekki sinnt málinu líkt og framsögumönnum er tamt að gera þegar þeir vilja ná málum á dagskrá. Sú vinna fæli í sér samtal við fólk og að stilla upp málinu þannig að ljóst væri hvað stæði út af og hvað væri hægt. 

Kolbeinn Óttarsson Proppé var framsögumaður málsins fyrir hönd Katrínar. Jón Þór bendir á að Kolbeinn hafi náð að ljúka við fiskeldislögin svo ljóst sé að hann kann á ferlana. Þegar ekkert hafi gerst í málinu síðustu sex vikur fóru að renna á Jón Þór tvær grímur.

Allar gestakomur vegna málsins kláruðust á mánuði og segir Jón Þór að nefndin hefði verið tilbúin til að taka málið út um miðjan mars, með breytingartillögum.

„Með þessu færir hún Sjálfstæðisflokknum neitunarvald“

„Ég les það hins vegar þannig að hvorki forsætisráðherra né framsögumaður hafi viljað að málið færi út úr nefndinni,“ segir Jón Þór.

Hann telur Katrínu hafa lagt frumvarpið fram í von um að fá frið, svo gæti hún kennt þinginu um að það hafi ekki hlotið afgreiðslu. 

„Katrín segist vilja heildarendurskoðun og að málið komist í aðra umræðu en aðeins ef sátt  næst. Með þessu færir hún Sjálfstæðisflokknum neitunarvald sem hún, fullreyndur stjórnmálamaður, veit að þeir munu nýta sér,“ segir Jón Þór og bætir við að um sé að ræða sjónarspil til að geta sagst hafa gert sitt en þingið hafi ekki klárað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert