Kerfið þurfi að taka tillit til aðstæðna fatlaðra barna

Borgarholtsskóli.
Borgarholtsskóli. mbl.is/Sigurður Bogi

Móðir drengs með Downs-heilkenni segir það vonbrigði að sonur hennar hafi ekki fengið pláss í þeim framhaldsskólum sem hann sótti um. Hún segir mikilvægt að tekið sé tillit til félagslegra þarfa fatlaðra barna. 

Garðar Hinriksson útskrifaðist úr 10. bekk Klettaskóla í síðustu viku. Garðar hafði sótt um skólavist í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Borgarholtsskóla, en hann fékk síðan inngöngu í Fjölbrautaskólann í Ármúla. Benedikta Birgisdóttir, móðir Garðars, segir það hafa verið töluverð vonbrigði. 

Nú veit ég að unglingar almennt fá ekkert endilega pláss í þeim skólum sem þau óska eftir. En afsakið, það gildir bara ekkert það sama um fötluð og ófötluð börn. Ófötluð börn eru almennt mun betur í stakk búinn til þess að aðlagast og kynnast nýju fólki o.s.frv. Félagaval fatlaðra barna er bara ekki jafn fjölbreytt og hjá öðrum, tel ég því afar mikilvægt fyrir þennan hóp að þau fái að vera sem mest með þeim sem þau eiga samleið með,“ skrifar Benedikta í færslu á Facebook þar sem hún vekur athygli á málinu. 

„Við sem sagt fórum og skoðuðum skóla og eftir það sækjum við um tvo skóla. Hann fær hvorugan og er bara settur í þriðja skólann, við erum ekkert spurð að því hvort að það sé eitthvað sem við getum hugsað okkur. Við höfum ekkert á móti þeim skóla, en það er bara ekki það sem við völdum fyrir hann,“ segir Benedikta í samtali við mbl.is. 

Kerfið taki ekki tillit til aðstæðna hvers barns 

Garðar og fjölskylda hafi valið framhaldsskóla m.a. með hliðsjón af félagslegum þörfum Garðars, en hann á vini sem eru nú þegar í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti. Fjölskyldan hafi fengið þær skýringar að fjöldi umsókna í FB hafi einfaldlega verið of mikill til að hægt væri að taka á móti öllum. 

Benedikta segir að Garðar fái ekki heldur að fara í Hitt húsið í frístund vegna búsetu fjölskyldunnar. Honum stendur til boða að fara í frístundaúrræði í Hafnarfirði, en fjölskyldan er búsett í Kjós. Benedikta segir það jafnframt mikil vonbrigði þar sem Garðar þekki marga sem fari í Hitt húsið. 

Það er þetta frístundaúrræði fyrir þá sem búa í Reykjavík, svo er þeim sem eru úr hinum sveitarfélögunum eiginlega safnað saman í þetta úrræði sem er í Hafnarfirði. Ég myndi vilja sjá að fyrir allt höfuðborgarsvæðið væri bara einn stór staður sem myndi taka á móti þessum börnum og þeim yrði þá skipt niður innan þess staðar, að þau gætu öll komið á sama stað og verið með þeim börnum sem þau eiga samleið með. Það er svo lítið félagaval og lítið hugsað um félagslega hlutann sem er í rauninni mikilvægastur fyrir fötluð börn,“ segir Benedikta. 

Hún segir erfitt að kerfið taki ekki tillit til aðstæðna hvers barns. 

„Maður er orðinn svo þreyttur á þessu blessaða kerfi sem er svo óhagganlegt. Það er eins og það sé allt bara meitlað í stein, það er ekki hægt að breyta neinu. Fólkið sem býr til þetta kerfi hlýtur að geta breytt því. Það er svo mikilvægt þegar maður er með fötluð börn að það sé hægt að horfa í aðstæður hvers og eins. Það þarf alltaf að vera að standa í einhverri baráttu ef maður ætlar að hugsa um það sem hentar en ekki bara það sem kerfið segir,“ segir Benedikta. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert