Stjórnvöld leggja áherslu á landgræðslu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands segir alþjóðasamvinnu mikilvæga í baráttunni gegn …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands segir alþjóðasamvinnu mikilvæga í baráttunni gegn landeyðingu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ráðherrafundur um landgræðslumál fór fram á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York í dag. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði fundinn á myndbandi ásamt stórum hópi annarra leiðtoga og ráðherra hvaðanæva úr heiminum. Sjálf var hún stödd í Brussel, þar sem hún sótti leiðtogafund Atlantshafsbandalagsins ásamt Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.

Í ávarpinu gerði Katrín grein fyrir verkefnum á sviði landgræðslu á Íslandi og þeirri miklu áherslu sem stjórnvöld legðu á málaflokkinn. Þá lagði hún áherslu á mikilvægi skógræktar, endurheimt vistkerfa og votlenda, ásamt kolefnisförgun, hvað viðkemur markmiði íslenskra stjórnvalda um að ná fram kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Einnig minntist hún á það hvernig Ísland hefði lagt sitt af mörkum með Landgræðsluskólanum sem starfræktur er hér á landi undir hatti UNESCO.

Katrín undirstrikaði einnig mikilvægi alþjóðasamvinnu í baráttunni gegn landeyðingu. Ef árangur næðist í átt að hlutleysi varðandi landhnignun, sem væri mikilvægur þáttur heimsmarkmiðanna, færðumst við um leið nær því að útrýma fátækt og hungri í heiminum.

Fundurinn var skipulagður af forseta allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna og fjöldi háttsettra embættismanna innan Sameinuðu þjóðanna tók þátt í honum, auk vísindamanna og fulltrúa frjálsra félagasamtaka sem og aðildarríkjanna.

Í tilkynningu Stjórnarráðsins um ráðherrafundinn segir að Ísland hafi ásamt Namibíu verið í forystu fyrir ríkjasamstarfi um málaflokkinn, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna í New York, frá árinu 2013 en ríkin tvö eru stofnendur og stjórnendur svokallaðs vinahóps um landgræðslumál en í honum eru 23 aðildarríki Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert