Gosóróinn hefur tekið sig upp aftur

Lengi lifir í glæðum eldgossins.
Lengi lifir í glæðum eldgossins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Gosóróinn á gosstöðvunum í Geldingadölum hefur tekið sig upp á nýjan leik en hann datt niður í gærkvöldi og í nótt. Óróinn er þó ekki orðinn eins stöðugur og hann var, að sögn Sigríðar Magneu Óskarsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Hún segir gosið „langt í frá að vera búið“.

„Óróinn hefur verið að rokka svona fram og til baka þótt þetta hafi kannski verið óvenjulega langur tími sem óróinn datt niður [í gærkvöldi og í nótt],“ segir Sigríður Magnea. 

Lítið hefur sést í gosstöðvarnar í nótt vegna þoku. 

„Óróinn hefur tekið sig upp aftur. Hann er samt ekki orðinn eins stöðugur og hann var en það glitti aðeins í þetta undir morgun og þá sá næturvaktin að það var alveg einhver glóð þarna enn þá. Þannig að þetta er langt í frá að vera búið,“ segir Sigríður Magnea. 

Mynd Andra, sem tekin var í gærkvöldi, sýnir að enn …
Mynd Andra, sem tekin var í gærkvöldi, sýnir að enn var líf í gígnum eftir að gosóróinn féll. Ljósmynd/Andri Þór Birgisson

Segir það að óróinn hafi dottið niður okkur eitthvað um að gosinu muni brátt ljúka eða að gosið sé að breytast?

„Það er erfitt að segja til um það. Okkur finnst frekar að þetta séu breytingar á gosrásinni sem útskýra breytingarnar á óróanum heldur en að það sé endilega eitthvað sem tengist virkninni sjálfri,“ segir Sigríður Magnea. 

Mesta hraunrennsli sem sést hefur

Hún telur að ef hraunflæðið fer eitthvað að minnka sé líklegra að farið sé að draga til tíðinda.

Miðað við fréttir frá Jarðvísindastofnun í gær virðist það alls ekki vera þannig,“ segir Sigríður Magnea.

Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands birti í gær yfirlit yfir mælingar á hraunflæði síðustu viku. Þar kom fram að meðalhraunrennsli hafi verið svipað og verið hefur síðan snemma í maí, en þó það mesta sem sést hefur það sem af er gosi. Munurinn á síðustu viku og vikunum á undan er samt sem áður ekki marktækur. 

„Hraunrennslið hefur því haldist nánast stöðugt í tæpa tvo mánuði, að meðaltali tvöfalt meira en var fyrstu sex vikurnar,“ segir á vef Jarðvísindastofnunar HÍ.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert