Hiti gæti mælst hæstur á hálendinu

„Í dag stefnir í fallegan sumardag víða um land, bjart veður, hægan vind og hlýtt veður (einkum inn til landsins),“ segir í hugleiðingum veðurfræðings Veðurstofu Íslands. 

Þar kemur fram að þokuslæðingur sé nú í morgunsárið sem er að mestu bundinn við ströndina þótt hann nái inn til landsins á Suðurlandi.

„Þessi þoka ætti að mestu að bráðna í burtu þegar líður á morguninn og sólin kemst hærra á loft. Sú óvenjulega staða er uppi að hæstu hitatölur gætu mælst á hálendinu, en það verður dagurinn að leiða í ljós,“ segir í hugleiðingunum. 

„Á morgun er útlit fyrir að þykkni upp um allt sunnanvert landið með smávegis vætu, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu, en að mestu þurrt fyrir norðan og áfram líkur á að sjáist til sólar þar. Þokan er heldur ekki langt undan, einkum við N- og A-ströndina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert