„Barnabörn Vilhjálms Stefánssonar lifðu af helförina“

Frumbyggjar Kanada hafa búið við mikla fordóma.
Frumbyggjar Kanada hafa búið við mikla fordóma. AFP

„Börnin voru vannærð og beitt líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi og mörg þeirra biðu þess aldrei bætur. Oft voru þau barin fyrir að grípa til móðurmáls síns.“ Þetta kemur fram í aðsendri grein Gísla Pálssonar mannfræðings í Morgunblaðinu en grein hans fjallar meðal annars um barnabörn Vilhjálms Stefánssonar landkönnuðar sem lifðu af kynþáttafordóma Kanadamanna gegn frumbyggjum.

Í grein Gísla segir að Vilhjálmur Stefánsson, f. 1879, eignaðist son, Alex, með Inúítakonunni Pannigablúk. Alex óx úr grasi á norðvestursvæðum Kanada og eignaðist sex börn með konu sinni, Mabel. Öll hafi þau upplifað fordóma og ofbeldið á kanadískum heimavistarskólum á eigin skinni.

Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður.
Vilhjálmur Stefánsson landkönnuður.

Gísli fór í vettvangsferð á slóðir afkomenda Vilhjálms í Kanada ásamt kvikmyndagerðarmanni og tók ítarleg viðtöl. 

Í greininni segir:

„Barnabörn Vilhjálms Stefánssonar lifðu af helförina, en öll voru þau löskuð af því samfélagi sem ól þau, enda bjuggu þau við þau mannskemmandi skilyrði sem nú eru rifjuð upp í kjölfar frétta af ómerktum gröfum. Öll urðu þau að hlýða valdboði hinna hvítu á heimavistarskólum, og eflaust hafa þau beint eða óbeint orðið fyrir barðinu á opinberum ofbeldisseggjum á vistinni. Stefánsson-nafnið veitti litla vörn; þau voru Inúítar. Börnin einangruðust, fjölskyldur þeirra sundruðust, áfengi tók sinn toll og ekki síður berklar, mislingar og aðrar farsóttir sem fylgdu vanlíðan og vannæringu. Þótt ekki væri langt fyrir þau að fara heim til sín fengu þau sjaldan heimfararleyfi og sáu lítið af foreldrum sínum á viðkvæmum mótunarárum. Allt kapp var lagt á að koma í veg fyrir viðhald menningar Inúíta og tungumáls þeirra (inúviakluktum).“

Þá segir að líklega hafi Rosie, elsta barn Alex og Mabel, verið sú eina sem hélt Inúítamálinu við. Síðustu æviár sín lagði hún kapp á að kenna ungum Inúítum mál sitt. Systkinin eru nú öll látin en Georgína, sem var yngst þeirra, kvaddi síðust árið 2017. Hún er eini afkomandi Vilhjálms Stefánssonar sem hefur komið til Íslands og hitt ættingja sína hérlendis.

Grein Gísla má lesa í heild sinni hér (krefst innskráningar).

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert