Misjafn styrkur flokka í kjördæmum

Enginn stjórnmálaflokkanna höfðar með jöfnum hætti til kjósenda á landinu öllu og þar getur skeikað verulegu. Þetta er meðal þess sem lesa má úr niðurbroti á niðurstöðum skoðanakönnunar sem MMR gerði í samvinnu við Morgunblaðið og mbl.is á afstöðu fólks til helstu væntanlegra framboða í alþingiskosningunum sem fram eiga að fara hinn 25. september í haust.

Það eru ekki ný sannindi að sumir stjórnmálaflokkar sæki sér frekar stuðning á sum svæði umfram önnur, frekar í þéttbýli eða dreifbýli. Það er hins vegar athyglisvert að enginn af stjórnmálaflokkunum níu, sem líklegt má telja að eigi mögulega á þingsæti í haust, sé með tiltölulega jafnt fylgi í kjördæmunum sex, stór sem þau þó eru.

Framsókn og Miðflokkur

Framsóknarflokkurinn hefur löngum verið talinn dreifbýlisflokkur, allt frá því þessi elsti stjórnmálaflokkur landsins varð til árið 1916 við samruna Bændaflokksins og Óháðra bænda. Hann á sér alveg stuðning á höfuðborgarsvæðinu, en ekki í neinni líkingu við það sem gerist í landsbyggðarkjördæmunum, sérstaklega Norðausturkjördæmi, en lætur áfram undan í Suðurkjördæmi.

Mynstrið er ekki ósvipað hjá Miðflokknum, sem kalla má klofning úr Framsóknarflokknum. Þar er fylgið í landsbyggðarkjördæmunum býsna svipað, en á höfuðborgarsvæðinu er það líka u.þ.b. jafnlélegt.

Samfylking og Sósíalistar

Mörgum kemur sjálfsagt á óvart að Samfylkingin skuli vera orðin eins konar landsbyggðarflokkur, þegar litið er til kjörfylgis eftir kjördæmum. Að því leyti virðist hún ekki hafa fyllilega rétt úr kútnum frá afhroðinu 2016, þegar hún var nánast þurrkuð út og náði engum þingmanni á suðvesturhorninu.

Sömuleiðis láta margir eins og Sósíalistaflokkurinn sé sella ungs, róttæks fólks í höfuðborginni, sem getur svo sem vel verið, en staðreyndin er sú að hann sækir fylgi sitt með miklu eindregnari hætti til Norðvestur- og Norðausturkjördæma en höfuðborgarsvæðisins. Til Sunnlendinga miklu síður.

Þá er Flokkur fólksins skrýtinn; hann á bæði fylgi á landsbyggð og í Reykjavík suður, en sáralítið í Reykjavík norður og nánast ekkert í Kraganum.

Píratar og Viðreisn

Ólíkir flokkar sem Píratar og Viðreisn eru að flestu leyti, þá eiga þeir það sameiginlegt að sækja styrk sinn einkum á höfuðborgarsvæðið en miklu síður út á land, þótt Píratar séu raunar með ágætt fylgi á Suðurlandi. Má eiginlega segja um þá báða að þeir hreyfi varla við fólki í Norðurkjördæmunum.

Sjálfstæðismenn og Vinstri-græn

Fylgi þessara tveggja flokka til hægri og vinstri er svolítið skrýtið. Sjálfstæðismenn eiga greinilega erindi um allt land, þeir einir ná hvarvetna máli. Hins vegar blasir við að þeir eru í tómu tjóni í Norðausturkjördæmi, tapa fjórðungi atkvæða frá síðustu kosningum, sem þó voru þeim ekki sérlega gjöfular.

Vinstri-græn standa tæpt í tveimur landsbyggðarkjördæmum og ekki vel nema í einu, Reykjavík suður. Er það þó ekki kjördæmi forsætisráðherrans Katrínar Jakobsdóttur, sem aðrar kannanir sýna að njóti bæði vinsælda og trausts. Þá er verra ef það skilar sér ekki í kjörkassana.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert