Tveir ráðherrar í bráðri fallhættu

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- …
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tveir ráðherrar Framsóknarflokksins myndu falla af þingi ef alþingiskosningarnar í haust færu eins og nýleg skoðanakönnun, sem MMR gerði í samstarfi við Morgunblaðið og mbl.is, gefur til kynna.

Þau Lilja Alfreðsdóttir og Ásmundur Einar Daðason, oddvitar framsóknarmanna hvort í sínu Reykjavíkurkjördæminu, myndu ekki ná kjöri samkvæmt því og vantar nokkuð upp á.

Fleiri þingmenn féllu af þingi og aðrir standa naumt, eins og lesa má um í samantekt í Morgunblaðinu í dag. Þar er reiknað út hvaða þingmenn kæmust að í hverju kjördæmi fyrir sig, kjördæmakjörnir og í uppbótarsætum.

Þar munar iðulega afar mjóu, enda kæmust níu flokkar á þing samkvæmt skoðanakönnuninni og þrír þeirra rétt ofan við 5% þröskuldinn. Þar þarf afar lítið að hnikast til svo einhver þeirra eða allir nái ekki inn á þing. Hinir flokkarnir eru einnig að bítast um fylgi, svo að hvert atkvæði mun skipta máli. Það á við í nánast öllum kjördæmum, enda getur atkvæðahlutfall í einu þeirra haft áhrif á úthlutun þingsæta í öðrum.

Engu má muna

Staða flokksforingja er ekki heldur alltaf sterk. Þannig virðist Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ná ein kjöri af frambjóðendum Vinstri grænna í Reykjavík norður. Sömuleiðis má nefna að staða Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar er ekki jafnsterk og oft áður, en miðað við niðurstöður könnunarinnar næði hann ekki inn sem kjördæmakjörinn þingmaður fyrir Norðausturkjördæmi, heldur sem eini uppbótarþingmaður þess.

Sem fyrr segir næðu níu flokkar á þing miðað við þessar niðurstöður, sem mun ekki gera stjórnarmyndunarviðræður auðveldari en áður. Þó er rétt til þess að líta að núverandi ríkisstjórn myndi naumlega halda meirihluta með 33 þingmenn að baki sér. Þrátt fyrir að Vinstri græn tapi nokkru fylgi og fjórum þingmönnum frá síðustu kosningum (þótt tveir þeirra bjóði fram með öðrum flokkum í haust), þá ynnu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hvor sinn manninn.

Hvort það þyki duga til þess að mynda starfhæfa ríkisstjórn kjósi ríkisstjórnarflokkarnir áframhaldandi samstarf er svo önnur saga. Það kann að velta mjög á komandi kosningabaráttu og hvernig samkomulagið reynist á stjórnarheimilinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert