Gott ár hjá erninum

Örn færir unga sínum bleikju, myndin er tekin við Húnaflóa …
Örn færir unga sínum bleikju, myndin er tekin við Húnaflóa í júlí, en varpið gekk vel í ár. Ljósmynd/Kristinn Haukur Skarphéðisson

Varp hafarnarins gekk vel í ár og komust 58 ungar á legg. Kristinn Haukur Skarphéðinsson, dýravistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir þetta mesta fjölda unga frá því að hafernir voru fyrst taldir fyrir réttum 100 árum árið 1921. Hann rifjar upp að þá hafi upplýsinga verið aflað á manntalsþingum, en síðan hafi rannsóknir smám saman eflst og arnarstofninn sé nú einna best þekkti fuglastofn landsins.

Í ár var orpið á 69 óðulum og komust ungar á legg á 45 þeirra. Kristinn Haukur segir að allar vísitölur arnarins séu sterkar í ár, hreiður, varp, ungar og óðul í ábúð sem eru nú 86. Í fyrra komust 52 ungar á legg og 56 árið 2019, sem þá var besta árið í 100 ára sögu talninga. Nú áætlar Kristinn Haukur að arnarstofninn telji á fjórða hundrað fugla, en stór hluti hans séu ungfuglar, sem algengt er að byrji að verpa 5-6 ára. Á sjöunda áratug síðustu aldar voru arnapörin aðeins talin vera ríflega 20.

Ljósmynd/Kristinn Haukur Skarphéðinsson

Hringnum lokað á næstu áratugum

Aðalheimkynni arnarins eru frá Faxaflóa norður og vestur um í Húnaflóa. Fullorðnir fuglar hafa sést reglulega austur í Mývatnssveit en hafa ekki ekki slegið sér niður í varp á þeim slóðum.

„Enn er nokkuð í land að haförninn loki hringnum og fari að verpa í öllum landshlutum, en ég held að það gerist á næstu áratugum ef þessi hagfellda þróun heldur áfram,“ segir Kristinn Haukur.

Hann segir að tíðarfarið á undanförnum árum hafi verið erninum hagstætt og stofninn hafi fengið meiri frið og svigrúm til að þróast og þroskast en áður.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert