Ráðuneytið skoðar uppkosningar

Komi til uppkosningar þarf hún að fara fram innan mánaðar.
Komi til uppkosningar þarf hún að fara fram innan mánaðar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Dómsmálaráðuneytinu hefur borist beiðni frá Alþingi um að ráðuneytið taki saman minnisblað um hvaða reglur gildi um uppkosningar.

Minnisblaðið er í vinnslu og verður sent Alþingi. Þetta upplýsir Fjalar Sigurðarson, upplýsingafulltrúi ráðuneytisins, í svari til Morgunblaðsins.

Lög um kosningar til Alþingis eru fáorð um það hvernig staðið skuli að uppkosningu komi til hennar.

Ráðuneytið ákveður kjördag

Í 115. grein laganna segir orðrétt: „Nú verður uppkosning nauðsynleg fyrir það að kosning er úrskurðuð ógild skv. 46. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 120. og 121. gr. þessara laga, og skal þá [ráðuneytið] 1) með auglýsingu kveðja til nýrra kosninga í kjördæmi og ákveða kjördag svo fljótt sem því verður við komið og eigi síðar en innan mánaðar. Að öðru leyti fer kosning fram samkvæmt fyrirmælum þessara laga.“

Í 46. grein stjórnarskrár Íslands segir: „Alþingi sker sjálft úr, hvort þingmenn þess séu löglega kosnir, svo og úr því, hvort þingmaður hafi misst kjörgengi.“

Ýmsar spurningar vakna hvernig staðið verði að uppkosningum. Mun sama kjörstjórn sjá um framkvæmdina? Eða segir hún af sér og Alþingi kýs nýja? Ennfremur vaknar sú spurning hvort sama kjörskrá gildir og við fyrri kosningu og hvort greidd verða atkvæði utankjörstaðar, heima og erlendis.

Hluti af fyrri kosningum

Miðað við orðalag 115. greinar kosningalaganna má ætla að uppkosning sé hluti af þeim kosningum sem þegar hafa farið fram, en hafa verið úrskurðar ógildar.

Svör við þessum spurningum og fleirum verða væntanlega í minnisblaði dómsmálaráðuneytisins, sem hefur yfirumsjón með kosningum til Alþingis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert