Vínbúðinni í Austurstræti lokað?

Húsnæðið í Austurstræti er sagt vera óhentugt fyrir starfsemi ÁTVR.
Húsnæðið í Austurstræti er sagt vera óhentugt fyrir starfsemi ÁTVR. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Til skoðunar er hjá ÁTVR að loka vínbúðinni í Austurstræti. Fyrirtækið leitar nú að húsnæði fyrir vínbúð á sama svæði. Vínbúðin í Austurstræti er sú af stærri vínbúðum ÁTVR þar sem minnst er selt af áfengi á ári hverju.

Á laugardaginn birtist auglýsing í Morgunblaðinu þar sem Ríkiskaup fyrir hönd Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins óskaði eftir að taka á leigu 400-600 fermetra húsnæði fyrir vínbúð i Reykjavík.

Tekið var fram í auglýsingunni að leitað væri að húsnæði sem afmarkaðist af Snorrabraut, Hverfisgötu, Tryggvagötu, Geirsgötu og til sjávar í norður.

Óhentugt húsnæði

„Ástæðan er sú að við erum að skoða með húsnæði sem kæmi væntanlega í staðinn fyrir Vínbúðina í Austurstræti,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir aðstoðarforstjóri ÁTVR í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Húsnæðið í Austurstræti sé frekar óhagstætt á tveimur hæðum, þar sem lagerinn er á neðri hæðinni. Einnig sé mjög þröngt með allan flutning til og frá Vínbúðinni. „Við munum meta stöðuna þegar við sjáum hvort við fáum tilboð í annað húsnæði,“ segir Sigrún.

Í auglýsingu Ríkiskaupa er sérstaklega tekið fram að góð aðkoma að húsnæðinu verði fyrir viðskiptavini og næg bílastæði. Æskilegt sé að sérmerkja megi um 20 stæði vínbúðinni. Við vínbúðina í Austurstræti eru sárafá bílastæði og þau oftast upptekin. Leigutími húsnæðisins verði allt að 10 ár.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert