Vísa verði niðurstöðum kosninga til MDE

Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar í Norð­vest­ur­kjör­dæmi.
Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar í Norð­vest­ur­kjör­dæmi. mbl.is/Sigurður Bogi

Guðmundur Gunnarsson, frambjóðandi Viðreisnar, segir að ekki sé hægt að sætta sig við þá niðurstöðu að seinni talning atkvæða í Norðvesturkjördæmi verði látin standa. Ef Alþingi kemst þó að þeirri niðurstöðu í næstu viku sé engra kosta völ nema vísa málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu.

Rúv greindi fyrst frá.

Undirbúningsnefnd kjörbréfanefndar mun skila greinagerð til Alþingis í byrjun næstu viku. Þykir líklegt að unnið sé að tveimur tillögum, annars vegar að seinni talning í kjördæminu standi, og hins vegar að kosið yrði aftur. Seinna í vikunni mun Alþingi taka ákvörðun í málinu.

Guðmundur er einn þeirra sem kært hefur framkvæmd kosninganna í Norðvesturkjördæmi en hann var auk þess frambjóðandi í kjördæminu.

Ekkert annað í boði

„Það er ekkert annað hægt í stöðunni. Það er ekkert annað í boði. Ég væri ekki sáttur við sjálfan mig eg ég myndi ekki leita réttlætisins alla leið,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is inntur eftir því hversu mikilvægt það væri að vísa málinu til MDE ef talning væri látin gilda.

„Ég held að það sé mikilvægt að fá utanaðkomandi niðurstöðu í þetta mál þannig að það sé lagt mat á hvaða raunverulegu þýðingu það hefur þegar að Alþingi leggur blessun sína yfir hrein og klár lögbrot í jafn mikilvægu ferli og kosningar eru.“

Hann segir kerfið okkar gallað að því leytinu til að þingmenn eru dómarar í eigin sök.

„Þeir eru að taka ákvarðanir og úrskurða um sjálfa sig. Þetta er löngu þekktur galli sem við höfum vitað af lengi en höfum ekki gert neitt í til að laga. Það var vitað að á einhverjum tímapunkti myndi þessi tímasprengja springa í andlitið á okkur.“

Hafa misst sjónar á heildarmyndinni

Hann segir undirbúningsnefnd sem fer fyrir rannsókn kjörbréfa hafa tekið sér langan tíma í að fara ofan í saumana á þessu máli og telur hann möguleika á að nefndarmenn séu að tína sér í smáatriðunum og missa sjónar á heildinni.

„Þetta er tvennt í rauninni. Í fyrsta lagi þá eru framin lögbrot, kosningalög eru brotin. Og í öðru lagi þá segir í bókun landskjörstjórnar eftir kosningar að hún geti ekki tryggt að kjörgögnin hafi verið örugg. Með öðrum orðum, það var hægt að svindla í þessum kosningum. Og eftir því sem málinu vindur fram kemur í ljós að það var tiltölulega létt að svindla,“ segir Guðmundur og bætir við að ekki sé hægt að láta vinnubrögðin við talninguna „slæda“ með þessum hætti. 

Hefur áhrif á traust fólks til Alþingis

Guðmundur segir mikilvægt að við sýnum framkvæmd talningar meiri virðingu en raun ber vitni. Kveðst hann auk þess sannfærður um það að öðruvísi hefði verið tekið á málinu hefði það komið upp í stærra kjördæmi.

„Ég veit það hins vegar að fólkið sem þar býr er hneykslað yfir þessu og það eru mjög margir á þeirri skoðun að þetta grafi algjörlega undan trausti til þess að ganga til kosninga og greiða atkvæði því fólk veit ekki hvernig var farið með atkvæði þeirra eða hvað varð um þau.“

Úrslitastund á fimmtudaginn

Segir Guðmundur áhugavert að fylgjast með á komandi dögum hvernig þingmenn munu kjósa um tillögur undirbúningsnefndar.

„Við höfum aldrei séð með jafn skýrum hætti hvort að þingmenn ætli að stilla sér upp eiginhagsmuna-megin eða almannahagsmuna-megin. Ég held að við munum bara sjá það svart á hvítu á fimmtudaginn.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert