Pólitísk vanræksla gagnvart heilbrigðiskerfinu

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar. mbl.is/Sigurður Unnar

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar segir heilbrigðiskerfið hafa verið vanrækt af hálfu pólitískra stjórnvalda til lengri tíma litið og því sé „ekki hægt að taka ákvarðanir eins og að ýta undir aukið frelsi með tilliti til bólusetninga“.

Hún segir það ekki þýða fyrir ríkisstjórnina að ætla í annan stað að klappa sjálfum sér á bakið fyrir viðbrögð við kórónuveirufaraldrinum en kannast síðan ekkert við sína pólitísku ábyrgð þegar kemur að uppbyggingu heilbrigðiskerfisins.

„Það er náttúrulega hneisa að það skuli ekki hafa verið farið út í miklu markvissari fjölgun hjúkrunarrýma á síðustu fjórum árum,“ segir hún í samtali við mbl.is.

Kórónuveiran dregið erfiðleikana fram

Þá segir Þorgerður að það sé ýmislegt sem sjáist í heilbrigðiskerfinu í dag sem sé erfitt og ekki bara sökum kórónuveirunnar heldur dragi hún þetta fram.

„Þannig að þessi pólitíska ábyrgð sem við stöndum frammi fyrir núna, hún er að verða miklu, miklu skýrara heldur en nokkurn tímann áður,“ segir Þorgerður.

Þá segir Þorgerður að árangurinn af þeirri pólitík sem hefur verið rekin undir ríkisstjórninni sé sá að við getum ekki annað heldur en horft fram á mikið álag á bæði heilbrigðiskerfið og heilbrigðisstarfsmenn.

„Af því að það hefur ekki verið snarpari og skarpari stefnumótun og eftirfylgni þegar kemur að heilbrigðismálum.“

Þorgerður bendir á að nú sé faraldurinn búinn að standa yfir í tæp tvö ár og að hún heyri ráðherra í ríkisstjórn tala um að við þurfum hugsanlega að lifa með veirunni í tvö ár í viðbót.

„Hvar er þá uppbyggingin sem þarf til að losa spítalann undir þessu álagi?“

Starfumhverfið laðar ekki að spítalanum 

Þá segir Þorgerður að við þurfum til að mynda ekki endilega að leita til útlanda til að fá menntaða hjúkrunarfræðinga en eins og mbl.is hefur greint frá skoðar Landspítalinn nú leið að ráða erlenda hjúkrunarfræðinga til spítalans.

„Þeir eru hérna heima en starfsumhverfið er þannig að það laðar ekki að spítalanum og þar af leiðandi getum við ekki dregið úr þessu miklu álagi sem er á heilbrigðisstarfsfólki.

Fyrir vikið þá erum við, fólk sem vill aukið frelsi og vill túlka efann frelsinu í vil heldur en annað, sett í mjög erfiða stöðu út af pólitískri vanrækslu gagnvart heilbrigðiskerfinu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert