„Vill ríkið að það verði aðeins einn fjölmiðill?“

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar. mbl.is/RAX

Heiðar Guðjónsson forstjóri Sýnar segir „algjörlega galið“ að framlög til Ríkisútvarpsins verði aukin um 420 milljónir króna, eins og kveðið er á um í fjárlagafrumvarpi næsta árs.

Áður greindi mbl.is frá því að Blaðamannafélag Íslands gerði ekki athugasemd við aukninguna en félagið vill jafnframt að styrkir til einkarekinna miðla verði hækkaðir um samtals 30 milljónir króna.

Heiðar setur spurningamerki við stöðu íslenskrar tungu og nýsköpunar í ljósi aðgerða og aðgerðaleysis stjórnvalda.

Ekki í anda nútímasamfélags

„Að sjálfsögðu er ekki hægt, líkt og er að gerast núna, að það sé verið að styrkja og búa til efnisveitu ríkissins á sama tíma og það er verið að bæta í fjárlög einhvers konar viðbótarstyrk til ríkisútvarps,“ segir Heiðar í samtali við mbl.is.

„Það hlýtur hver maður að sjá að það er ekki í anda nútímasamfélags.“

Augljóslega halli á einkarekna miðla.

„Það er algjörlega fráleitt að ríkið sé í samkeppni við einkaaðila á öllum sviðum og neiti að taka á augljósum samkeppnisyfirburðum sem erlendar efnisveitur hafa, þar sem við höfum, sem innlend efnisveita og fjölmiðill, ríka skyldu gagnvart íslenskri tungu,“ segir Heiðar.

Nefnir hann dæmi um talsetningarskyldu á barnaefni sem erlendar efnisveitur á borð við Netflix þurfa ekki að lúta.

Innlendir borga en erlendir ekki

Aukningin til Ríkisútvarpsins ein og sér nemur hærri upphæð en allir einkareknir miðlar fá í sinn hlut samtals í styrkjum frá ríkinu. Heiðar segist vera á þeirri skoðun að fjölmiðlar ættu að vera án ríkisstyrkja yfir höfuð.

Samkeppnisyfirburðir erlendra stórfyrirtækja einskorðist ekki við efnisveitur. Nefnir Heiðar samfélagsmiðla sem dæmi en undanfarin ár hafa fyrirtæki á borð við Facebook og Google tekið til sín hærra hlutfall auglýsingatekna án þess að þurfa að greiða innlendan skatt.

„Allir samfélagsmiðlar eru án skattskyldu á auglýsingum á samfélagsmiðlum á meðan innlendir þurfa að borga fullan skatt af því,“ segir hann.

„Þetta er bara fráleitt. Vill ríkið að það verði aðeins einn fjölmiðill á Íslandi og síðan erlendar efnisveitur og alþjóðlegir samfélagsmiðlar? Hver er þá staða íslenskrar tungu og hver er staða nýsköpunar á Íslandi?“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert