Niðurstaða liggur væntanlega fyrir á morgun

Víðir segir að niðurstaða muni væntanlega liggja fyrir á morgun.
Víðir segir að niðurstaða muni væntanlega liggja fyrir á morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Verið er að leggja mat á gögn frá sóttvarnastofnun Bandríkjanna sem lágu að baki þeirri ákvörðun að stytta einangrun smitaðra einstaklinga sem eru einkennalausir, úr tíu dögum í fimm. Gert er ráð fyrir að þeirri vinnu ljúki í síðasta lagi á morgun.

Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarna, í samtali við mbl.is.

Færsla Landspítala yfir á neyðarstig fyrr í dag, vegna vaxandi álags, kann að setja strik í reikninginn við ákvarðanatökuna.

Mun virka fyrir marga en ekki alla

Spurður hvort það sé ekki hætt við því að faraldurinn fari úr böndunum ef einangrunartími verður styttur og fólki falin sú ábyrgð í staðinn að bera grímu í kringum annað fólk segir Víðir: 

„Ef það verður metið þannig þá munum við ekki gera þetta, en sóttvarnastofnun Bandaríkjanna er með gríðarlegan fjölda sérfræðinga og mikla hópa sem þeir geta rannsakað. Hingað til hafa gögn þeirra reynst okkur nokkuð góð og við höfum farið eftir þeirra mati í mörgum tilfellum. En það er auðvitað breytt staða hjá okkur núna því Landspítalinn fór yfir á neyðarstig núna rétt áðan, þannig að við verðum að taka tillit til þess í okkar vinnu.“

Þá bendir Víðir á að verði þessi stytting að veruleika hér á landi, þá muni hún ekki ganga yfir alla. Hún eigi til að mynda aðeins við alveg einkennalausa, en mjög margir fái einhver einkenni, þótt þau séu væg. Þá geti starfsfólk heilbrigðisstofnana og hjúkrunarheimila ekki mætt til vinnu eftir fimm daga einangrun. 

„Þetta fer allt eftir því hvernig þú ert og hverja þú umgengst, hvort þú munir falla undir þessa fimm daga reglu eða þú þurfir að vera í tíu daga. Þetta mun virka fyrir marga en ekki alla.“

Þrír í öndunarvél

Smit hafa nú bæði greinst meðal starfs­manna og sjúk­linga, meðal ann­ars á hjarta­gátt, bráðamót­töku og Landa­koti. 21 sjúklingur liggur á spítalanum með Covid-19, fjórir eru á gjörgæslu, þar af þrír í öndunarvél. Þá eru um 100 starfsmenn spítalans í einangrun og fjölmargir í sóttkví.

Í tilkynningu frá farsóttarnefnd í dag kom fram að þungar áhyggjur væru af stöðunni, en metfjöldi smita hefur greinst upp á hvern dag og gert er ráð fyrir að smitum haldi áfram að fjölga.

Þurfa að heimfæra gögnin

„Við höfum fundað með læknum Landspítalans í dag og eins og þeir fóru vel yfir með okkur, að þótt fólk hafi lagst inn út af einhverju öðru, þegar það er komið Covid ofan í jafnvel erfið veikindi, þá verða sjúklingar miklu þyngri í allri meðferð og meiri hætta á að þeir veikist alvarlega,“ segir Víðir. Hann bendir á að sjúklingar með Covid krefjist mun meira utanumhalds en aðrir og varnarbúnaðar starfsfólks, sem geri alla umönnun þyngri.

Þetta þarf allt að meta við ákvarðanatökuna, sem og fleiri þætti, að sögn Víðis.

„Það þarf annars vegar að skoða hvaða gögn þetta eru sem lágu að baki þessari ákvörðun sóttvarnastofnunar Bandaríkjanna og hins vegar að heimfæra það yfir til okkar. Við höfum gert það í mörgum tilfellum að nota rannsóknir og gögn frá þeim til að styðja við ákvarðanir sem hér hafa verið teknar.“

Eins og áður sagði má búast við að niðurstaða liggi fyrir á morgun og breytingar þá kynntar í kjölfarið, ef af þeim verður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert