Leggja til breytingu á sóttvarnalögum

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er meðal flutningsmanna frumvarpsins.
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er meðal flutningsmanna frumvarpsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þingflokkur Viðreisnar hefur lagt fram frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum. Breytingin snýr að því að vald ráðherra til að grípa til sóttvarnaaðgerða verði temprað þannig að eftirfarandi samþykki Alþingis sé áskilið.

Um er að ræða viðbótarmálsgrein við 18. grein laganna. Með henni yrði gerð krafa um að þegar farsótt hefur varað lengur en í þrjá mánuði og ráðherra hefur sett reglugerð um opinberar sóttvarnaráðstafanir, sé sú reglugerð sem og frekari ákvarðanir bornar undir þingið innan tveggja vikna í formi þingsályktunartillögu.

Í slíkri tillögu yrði að gera ítarlega grein fyrir ráðstöfunum og forsendum sem að baki liggja. Þingið gæti þá ýmist samþykkt, breytt eða fellt ályktunina. Ráðherra yrði svo skylt að framfylgja vilja þingsins í framhaldinu, þ.e. breyta eða fella reglugerðina úr gildi ef svo ber undir. 

Mikilvægt að tryggja aðkomu Alþingis

Þingflokkur Viðreisnar telur mikilvægt að tryggja betur aðkomu Alþingis, að ákvarðanatöku sem kann að hafa í för með sér svo umfangsmiklar skerðingar á réttindum fólks til atvinnu, frelsis eða hópamyndunar. 

„Flutningsmenn frumvarps þessa halda því ekki fram að opinberar sóttvarnaráðstafanir sem ráðherra hefur kveðið á um vegna yfirstandandi heimsfaraldurs kórónuveirunnar hafi brotið gegn stjórnarskrárvörðum mannréttindum almennings á Íslandi,“ segir í greinargerðinni.

Faraldurinn hefur, að þeirra mati, varpað ljósi á tiltekna annmarka í lögum um sóttvarnir þegar kemur að langvinnum takmörkunum réttinda á grundvelli laganna.

Fullt tilefni er til að kalla þing saman þrátt fyrir jólahlé eða sumarhlé til að afgreiða þingsályktunartillögu um opinberar sóttvarnaráðstafanir.“

Frumvarpið má lesa í heild sinni á vef Alþingis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert