Orð Ragnars koma á óvart

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. Ljósmynd/Almannavarnir

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir afstöðu fyrrverandi yfirmanns Covid-göngudeildar Landspítala gagnvart ástandinu á spítalanum koma sér á óvart. Hann segir ekki nóg að einblína á innlagnir á gjörgæslu þegar staða faraldursins sé metin og að taka þurfi mið af fleiri þáttum, meðal annars víðtækra veikinda í samfélaginu. 

Ragn­ar Freyr Ingvars­son, sér­fræðing­ur í lyf- og gigt­ar­lækn­ing­um og fyrr­ver­andi yf­ir­maður Covid-göngu­deild­ar Land­spít­ala, hefur kallað eftir umræðu um hvenær neyðarástandi verði aflýst vegna veirunnar þar sem svo fáir séu að veikjast alvarlega. 

Ekki hafi margir þurft að leggjast inn á gjörgæslu og á einhverjum tímapunkti þurfi að draga línu í sandinn.

Í samtali við mbl.is vakti Ragnar jafnframt athygli á því að spítalinn hafi verið við heljarþröm svo árum skiptir. Hafi hann verið troðinn af sjúklingum síðasta fimm og hálfa árið og neyðarástandið varað mun lengur en faraldur veirunnar. 

Telur hann að verið sé að nota spítalann til að réttlæta takmarkanir í samfélaginu.

Komi á óvart að góður og gegn læknir tjái sig svona

Í samtali við mbl.is segir Þórólfur sögu Landspítala ekki breyta því hvernig ástatt er fyrir honum í dag. 

„Staðan á Landspítala er bara eins og hún er. Menn geta svo sem talað um af hverju það sé, hún er eins og hún er. Forráðamenn spítalans, forstjórar, stjórn, farsóttarnefnd, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar og yfirlæknir sýkingavarnadeildar hafa svo sannarlega lýst yfir ástandi á spítalanum og þess vegna kemur manni á óvart að Ragnar Freyr, sem góður og gegn læknir á spítalanum, skuli tjá sig með öðrum hætti,“ segir Þórólfur. 

Hann ítrekar að fjöldi heilbrigðisstarfsmanna sé nú frá vegna veikinda sem valdi verulegri truflun á starfsemi spítalans.

„Það er það sem er að valda þjónustubresti við mjög marga – sem er bara alvarlegt heilsufarslegt vandamál í sjálfu sér. Ragnar er ekki, heyrist mér, að tala mikið um það. Hann talar bara um fjölda fárra sem þurfa að leggjast inn á gjörgæslu.“

Fólk stoppar stutt við á spítala

Þórólfur segir það vissulega rétt að innlagnarhlutfallið sé ekki hátt en hann vekur athygli á að enn þurfi fimm til sex að leggjast inn á dag vegna veirunnar.

Aftur á móti sé útskriftarhlutfallið svipað hátt, sem veldur því að fjöldi innlagðra breytist lítið milli daga.

„Þannig fólk stoppar stutt við. Svo er náttúrulega gríðarlegt álag líka á Covid-göngudeildina þar sem þau eru að sjá kannski upp undir 20 manns á dag og forða þannig innlögnum,“ segir Þórólfur.

„Það er mjög þröngt að horfa bara á innlagnir núna og horfa bara á innlagnir á gjörgæsludeildina. Menn þurfa að horfa á stærri myndina og sjá þessi víðtæku veikindi í samfélaginu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert