Bankarnir hafi svigrúm til að styðja við heimili

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri. mbl.is/Kristinn Magnússon

Eiginfjár- og lausafjárstaða kerfislega mikilvægu bankanna er vel yfir lögbundnum mörkum og þeir hafa því nægt svigrúm til að styðja við fyrirtæki og heimili. 

Þetta kemur fram í yfirlýsingu fjármálastöðuleikanefndar í dag. 

Í yfirlýsingu nefndarinnar að ákveðið hafi verið á fundi að halda gildi sveiflujöfnunaraukans óbreyttu í ársfjórðungslegu endurmati, í tveimur prósentum. 

Ákvörðun nefndarinnar frá september sl. um að hækka aukann úr 0% í 2% tekur gildi í lok september. Nefndin ákvað einnig að halda gildi eiginfjárauka vegna kerfisáhættu óbreyttu í 3%.

Hægari efnahagsbati

„Efnahagsbatinn í ár verður líklega hægari en áður var talið vegna áhrifa kórónuveirunnar og innrásar Rússa í Úkraínu, sérstaklega ef stríðið dregst á langinn,“ segir í yfirlýsingunni. 

Þá kemur fram að staða heimilanna er almennt góð og hægt hefur á skuldavexti þeirra. „Dregið hefur úr atvinnuleysi og atvinnuþátttaka aukist. Traust staða heimila mun auðvelda þeim að standa undir hærri greiðslubyrði íbúðalána ef vextir hækka frekar og heimilin hafa aðgang að ólíkum lánaformum til að takast á við verðbólgu. Vanskil hafa minnkað frá upphafi faraldursins og eru nú innan við 1% af útlánum banka til heimila.“

Fyrir rúmlega mánuði síðan sagði Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra í viðtali við Morgunblaðið að hún teldi rétt að bankarnir ættu, í ljósi mikils hagnaðar, að létta undir með fyrirtækjum og heimilum sem horfi fram á hærri vaxtabyrði vegna vaxtahækkana Seðlabankans.

„Bank­arn­ir eru að skila of­ur­hagnaði og hagnaður þeirra verður meiri í kjöl­far stýri­vaxta­hækk­ana Seðlabanka Íslands. Ég tel að það eigi að nota þenn­an of­ur­hagnað til að greiða niður vexti fólks­ins í land­inu,“ sagði Lilja við það tækifæri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert