Festu tvo bíla í fjöru og sjóinn flæddi að

Bílaleikur ungra manna í Geldinganesi endaði nærri með ósköpum í …
Bílaleikur ungra manna í Geldinganesi endaði nærri með ósköpum í morgun. Ljósmynd/Veiga Grétarsdóttir

Litlu mátti muna að illa færi þegar sjó tók að flæða að bíl sem ungir ökumenn höfðu fest í fjörunni í Geldinganesi í morgun. Ekkert amaði að mönnunum, en líklegast hefur bíll þeirra skemmst eitthvað í leiknum.

Þetta segir Veiga Grétarsdóttir kajakræðar í samtali við mbl.is, en hún er oftar en ekki stödd niðri í Geldinganesi, þar sem kajakklúbburinn er með aðstöðu, og var á staðnum þegar atvikið átti sér stað.

Sá að bíllinn yrði fljótlega kominn á kaf 

„Ég bý meira og minna bara í húsbíl núna þannig ég gisti oft þar. Þegar ég dró frá í morgun var þetta það fyrsta sem ég sá, bíl niðri í fjöru.“ 

Verandi sjóaður kajakræðari var Veiga fljót að sjá að það stefndi í óefni næðu mennirnir ekki að losa bílinn fljótlega. Ákvað hún því að hringja í lögregluna og óska eftir aðstoð.

„Þeir vissu af þessu og voru búnir að kalla á hjálp en það tók tíma fyrir hana að berast. Það var að falla að og ég sá að það myndi falla fljótlega að bílnum.“

Því næst hafi hún farið og rætt við mennina sem sátu inni í bílnum úti í sjó eftir árangurslausar tilraunir til að losa bílinn og biðu þar eftir að hjálpin bærist.

„Ég ráðlagði þeim að byrja tæma verðmæti úr bílnum ef hjálpin færi ekki að koma því bíllinn myndi fljótlega fara á kaf. Það var byrjað að falla dálítið vel að á þessum tímapunkti og þegar búið er að falla að í tvo tíma þá eykst straumurinn hratt.“

Dráttarbíll frá Vöku festist í fjörunni í björgunaraðgerðunum.
Dráttarbíll frá Vöku festist í fjörunni í björgunaraðgerðunum. Ljósmynd/Veiga Grétarsdóttir

Dráttarbíll festist líka í björgunaraðgerðunum

Eftir drjúga stund mætti dráttarbíll frá Vöku á staðinn. Veiga mat það þó svo að hann væri ekki að fara hjálpa mikið.

„Ég sagði bílstjóranum að hann myndi ekki fara sínum bíl niðri í fjöru því sandurinn væri gljúpur en hann fór samt og festist líka.“

„Svo kom annar dráttarbíll frá Vöku sem var fjórhjóladrifinn. Hann náði fyrst að losa Yaris-bílinn en þá var búið að flæða svolítið að honum og fór svo í að losa hinn dráttarbílinn. Þeir voru að brasa í þessu í örugglega fjóra klukkutíma.“

Ungu ökumennirnir sluppu því rétt fyrir horn og hlaut enginn mein af nema kannski bíllinn sem dreginn var upp á framhjólinu enda hvergi hægt að binda í hann, að sögn Veigu.

„Þetta voru bara ungir strákar í bílaleik sem ekki hafa gert sér grein fyrir því hvað sandurinn er gljúpur. Maður fer ekki niður í fjöru á bíl nema hann sé fjórhjóladrifinn og á stórum dekkjum. Þetta er bara dýrkeypt reynsla hjá þeim. Það kostar nokkra þúsundkalla að láta bjarga sér svona.“

Allt er gott sem endar vel en fjórhjóladrifnum dráttarbíl frá …
Allt er gott sem endar vel en fjórhjóladrifnum dráttarbíl frá Vöku tókst að losa báða bílana. Ljósmynd/Veiga Grétarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert