Hopp-hjólin hafa ekki kveikt í sér

Á fleygiferð á hjóli frá Hopp. Slík hjól ganga líka …
Á fleygiferð á hjóli frá Hopp. Slík hjól ganga líka undir nafninu skútur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Aldrei hefur komið upp sjálfsíkveikja út frá rafhlaupahjólum fyrirtækisins Hopps en samkvæmt svörum frá fyrirtækinu er ástæðan hönnun rafhlaðnanna. 

mbl.is fjallaði um hættuna á sjálfsíkveikjum í rafhlaupahjólum í síðustu viku en útköllum vegna slíks til slökkviliðsins hefur fjölgað ár frá ári. Kviknað hefur í slíkum hjólum í heimahúsum og hjólum á götum úti sem eru á vegum leigufélaga, þó ekki á vegum Hopps. 

„Rafhlöðurnar í hjólunum okkar virka sem algjörlega sjálfstæð eining og eru óháðar virkni annara íhluta í rafskútunni. Þær eru hannaðar með öryggi, þægindi og gegnsæi í huga svo það er auðvelt fyrir Hopperana okkar að aflæsa, taka rafhlöðuna úr og sjá ástand hennar á litlum skjá ef hún er tóm eða hættir að virka,“ segir í svari Hopps við fyrirspurn mbl.is.

Hjólin verða óvirk ef villa kemur upp 

Rafhlöðurnar í hjólunum eru með innbygðu kerfi sem gengur undir skammstöfuninni BMS. Það vaktar „stanslaust“ hitastig, spennu og straum rafhlöðunnar.

„Þessi þrjú mæligildi segja til um hvort rafhlaðan er líkleg til að valda sjálfsíkveikju eða ekki. Ef eitthvað af þessum mæligildum fara út fyrir æskileg mörk, þá slekkur rafhlaðan á sér samstundis og þar með kemur í veg fyrir að hún haldi áfram að hitna ásamt því að tilkynna villumeldingu til okkar. Þessi mörk eru skilgreind langt fyrir neðan hættumörk og því nánast hægt að útiloka það að sjálfsíkveikja eigi sér stað í okkar skútum,“ segir í svari Hopps. 

„Ef villa kemur upp í rafhlöðu er það túlkað sem óvirk rafskúta sem notendur geta ekki leigt fyrr en Hopperarnir okkar mæta á staðinn og greina bilunina nánar. Til að tryggja öryggi notenda okkar, sjáum við til þess að allar rafhlöður sem bila fara beint í endurvinnslu vegna þess að öryggi Lithium rafhlaðna getur ekki verið tryggt ef það er gert við þær.“

Sama týpa og er í Teslum

Þá segir í svarinu að yfirbygging rafhlöðunnar sé búin til úr tvöföldum álvegg.Getur hann gefið eftir öllu utanaðkomandi höggi án þess að höggið rjúfi einangrun rafhlöðunnar.

„Efnasamsetning og stærð sellana er 21700 Lithium Ion sem framleiddar eru af Samsung undir ströngustu öryggiskröfum sem gerast í heiminum í dag. Þessi týpa er ekki einungis notuð í rafskútum heldur í nánast öllum rafknúnum faratækjum í dag og þar á meðal rafbílar frá Tesla, Jaguar og fleiri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert