Keyrði upp Kárahnjúkavirkjun

Nýr Range Rover Sport þeytist upp Kárahnjúkavirkjun.
Nýr Range Rover Sport þeytist upp Kárahnjúkavirkjun. Ljósmynd/Aðsend

Jessica Hawkins áhættubílstjóri keyrði upp Kárahnjúkastíflu núna á dögunum. Að því loknu brunaði hún upp vatnsaffallið sem fellur af Hálslóni á hraðanum 750 tonn á mínútu. Ef Hawkins hefði misst grip í vatninu á leið upp affallið, hefði beðið hennar 90 metra fall frá enda þess ofan í Hafrahvammagljúfur.

Þetta stórbrotna áhættuatriði er hægt að sjá hér neðar í fréttinni.

Kynningarherferð fyrir nýjan bíl

Áhættuatriðið er hluti af nýrri kynningarherferð fyrir bílaframleiðandann Land Rover sem var frumsýnd síðasta þriðjudag. Auglýsingin var tekin upp hér á landi í ágúst í fyrra. Í kynningarherferðinni kynnir Land Rover splunkunýjan Range Rover Sport.

Umrædda auglýsingu er hægt að sjá hér að neðan en aksturinn upp Kárahnjúka hefst þegar 3 mínútur og 33 sekúndur eru liðnar af myndbandinu.

Hæstánægð með verkefnið

Íslenska framleiðslufyrirtækið Polarama sá um tökur og framleiðslu auglýsingarinnar hér á landi. Steinarr Logi Nesheim, framkvæmdastjóri Polarama, segist vera mjög ánægður með verkefnið.

„Það er frábært að fá að taka þátt í þessari landkynningu. Við sáum það strax á verkefninu að þetta yrði frábær kynning fyrir Ísland,“ segir Steinarr við mbl.is. 

Að sögn Steinarrs var það mikil áskorun að framkvæma þessa hugmynd Land Rover. „Þau spurðu okkkur að því hvort þetta væri mögulegt og við náttúrlega klóruðum okkur í höfðinu í smástund. Síðan hófst bara vinnan við það að gera hið ómögulega mögulegt.“

Spurður hvernig þeir hafi staðið að þessari keyrslu upp vatnsaffallið segist Steinarr ekki geta tjáð sig um það með beinum hætti en að töfrar kvikmyndagerðarinnar spili þar inn í.

Fyllsta öryggis gætt og leyfi fengin fyrir öllu

Bergljót Mist Georgsdóttir, markaðsfulltrúi BL, segir í samtali við mbl.is að Land Rover hafi fengið leyfi frá Landsvirkjun og öllum landeigendum fyrir upptökunni og að fyllsta öryggis hafi verið gætt allan tímann.

Bætir Bergljót við að henni finnist ótrúlegt að áhættubílstjórinn hafi þorað að keyra upp vatnsaffallið, þar sem ekki hafi verið um nein brögð í tafli að ræða.

„Þeir vildu sýna kraftinn í Sportinum og ákváðu þá að Ísland væri æðsta þrekraunin fyrir bílinn. Það voru engir kaplar eða vírar eða neitt svoleiðis sem héldu í bílinn. Þetta var bara bíllinn einn og sér,“ segir Bergljót og bætir við að þeir hafi ekkert verið að grínast í myndbandinu þegar þeir töluðu um að ef bílstjórinn hefði misst bílinn, þá hefði hann farið fram af.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert