Hvammur varasamasti hviðustaður landsins

Hvammur er undir Eyjafjöllum.
Hvammur er undir Eyjafjöllum. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Bærinn Hvammur á Suðurlandi er algengasti vindhviðustaður landsins samkvæmt skýrslu Einars Sveinbjörnssonar og Sveins Gauta Einarssonar hjá Veðurvaktinni ehf.

Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar en verkefnið er styrkt af rannsóknasjóði Vegagerðarinnar.

Rétt á eftir Hvammi á listanum er Hafnarfjall við Borgarnes og í þriðja sæti er Vatnsskarð eystra á Austurlandi. 

Markmið rannsóknarinnar var að útbúa hnitsett kerfi upplýsinga um varasama hviðustaði en samtals voru 86 hviðustaðir kortlagðir.

„Við skráninguna var gerð sú krafa að á viðkomandi stað væri þekkt að ökutæki eða vagnar hefðu fokið út af eða lent í öðrum vandræðum vegna vinds. Í sumum tilvikum flettist klæðning af að auki. Stundum á hálka eða skafrenningur hlut að máli,“ kemur fram í tilkynningunni.

Þá segir að gerð hafi verið rík krafa um að vandræði skapist vegna þess að vindurinn sé byljóttur. 

Unnið var út frá öllum mælingum á árunum 2011-2020. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert