Reynir braut siðareglur með umfjöllun um Róbert

Reynir Traustason og Róbert Wessman.
Reynir Traustason og Róbert Wessman. Samsett mynd.

Reynir Traustason ritstjóri Mannlífs braut alvarlega gegn siðareglum Blaðamannafélags Íslands (BÍ) með umfjöllun um Róbert Wessman. Trausti Hafsteinsson fréttastjóri var ekki talinn hafa brotið gegn siðareglunum.

Siðanefnd BÍ komst að þessari niðurstöðu í nýföllnum úrskurði sínum.

Byggist niðurstaðan meðal annars á því að Reynir hafi verið vanhæfur til að fjalla um málefni kæranda eins og hin kærða umfjöllun var sett fram. Ástæðan var sú að hann hafði þegið fjármuni frá Halldóri Kristmannssyni, fyrrum starfsmanni Alvogen, vegna bókarskrifa um kæranda. Honum hafi borið að varast slíka hagsmunaárekstra.

Gætti ekki að hagsmunum lesenda

„Með hinum kærðu skrifum hefur kærði, Reynir Traustason, því ekki farið að þeirri grundvallarreglu að blaðamanni beri fyrst og síðast að gæta að hagsmunum lesenda. Siðanefnd telur að hann hafi fært hagsmuni Halldórs Kristmannssonar framar og hafi því brotið gegn 5. gr. siðareglna,“ segir í úrskurðinum.

Róbert lýsti því að kæran hefði lotið að látlausri umfjöllun Mannlífs um hann, sem ætti ekki við rök að styðjast. Miðilinn hefði undanfarna mánuði staðið fyrir nokkurs konar herferð gegn sér. Þá lýsti hann því að margar umfjallanirnar hefðu birst fyrir tilstuðlan Halldórs og hélt hann því fram að Halldór hefði beitt sér gegn honum eftir að Halldóri var sagt upp störfum.

Þá taldi Róbert upp fimm greinar sem hann sagði rangar. Vísaði Róbert til þess að hann teldi fréttagildi greinanna takmarkað eða ekkert.

Greitt fyrir herferð gegn sér

Róbert vísaði einnig sérstaklega til þess að hann teldi Halldór hafa í gegnum félagið Skrúðás „greitt Mannlífi fyrir herferð gegn sér“ með útgáfu reikninga Mannlífs til félagsins fyrir textasmíð og aðstoð við textasmíð. Fullyrti Róbert að fjárhæð greiðslnanna í fyrra hefði numið rúmum 30 milljónum.

Reynir og Trausti höfnuðu því að standa í herferð gegn Róberti. Þeir höfnuðu því einnig að Halldór væri fjárhagslegur bakhjarl Mannlífs. Reynir hefði hins vegar unnið að bók í samstarfi við Halldór sem kostaði útgáfu hennar. Þá sögðu þeir alla hina kærðu umfjöllun vera sannleikanum samkvæma.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert