Útiloka ekki að bjóða upp á skutl aftur

Lísbet Sigurðardóttir, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna.
Lísbet Sigurðardóttir, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta gekk vonum framar og mikill áhugi fyrir þessu hjá okkur, miklu meira en við bjuggumst við í rauninni,“ segir Lísbet Sigurðardóttir, formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna (SUS), um skutlþjónustu sambandsins fyrir gesti miðbæjarins í gærkvöldi. 

Lísbet segir í samtali við mbl.is að síminn hafi ekki stoppað allan tímann og ekki sé útilokað að SUS taki upp á athæfinu aftur.

Hún segir að nokkrir bílar hafi boðið upp á akstur, „við ætluðum ekki að vera með stóran hóp ökumanna því við vissum ekki hvernig þetta yrði allt saman.“

Lísbet segir að almennt hafi verið gleði og góð stemning í bílunum og allir mjög þakklátir og ánægðir með framtakið. 

Tekið var við frjáls­um fram­lög­um og mun ágóðinn renna í túlkþjón­ustu til að auka aðgengi er­lendra aðila að leigu­bif­reiðamarkaðinum.

Lísbet segir þó að ekki hafi mikið safnast en að það hafi heldur ekki hafa verið meginmarkmiðið.

Vilja opna markaðinn fyrir erlenda aðila

Hún segir að SUS hafi talað lengi fyrir auknu frelsi á leigubílamarkaðinum og heilbrigðri samkeppni. 

„Við viljum opna markaðinn fyrir erlenda aðila eins og Uber og Lyft og líka að auka á samkeppnisumhverfið á leigubílamarkaðinum á Íslandi þannig að innlendar farþegaþjónustur geti opnað fyrir þjónustu og annars konar nýsköpun. Þetta er rosalega rúðustrikað eins og þetta hefur verið og við þekkjum í rauninni ekkert annað.“

Lísbet segir að neyðarástand ríki í miðbænum um helgar og því þurfi að bregðast við því strax. 

„Það er ekki nóg að það gerist í næsta mánuði eða eftir tvo mánuði, það þarf að gerast strax og þess vegna komum við inn í þetta því að við vildum leggja okkar að mörkum,“ segir hún og bætir við að ástandið skapi hættu ef fólk freistist til að keyra ölvað.

„Ég held því að það sé öllum fyrir bestu að opna og auka frelsið á markaðinum.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert