Erlendir ferðamenn verði að taka þátt í veggjöldum

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður umhverfis- og samgöngunefndar.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður umhverfis- og samgöngunefndar.

Vilhjálmur Árnason, formaður umhverfis- og samgöngunefndar, segir að útfæra verði gjaldtöku í samgöngum þannig að erlendir ferðamenn, sem hafa aukið álagið á íslenska vegakerfinu, taki þátt.

Sig­urður Ingi Jó­hanns­son innviðaráðherra hef­ur boðað gjald­töku í öll­um jarðgöng­um lands­ins til að standa und­ir rekstri þeirra og fjár­mögn­un. 

Vilhjálmur telur að það væri mikið sanngjarnari lausn að vera með gjaldtöku á stofnæðum frá höfuðborgarsvæðum. Þar sé meirihluti landsmanna, mesti straumur ferðamanna og fjárfrekustu framkvæmdirnar.

Hann segir að gjaldtakan við höfuðborgarsvæðið myndi flýta gríðarlega úrbótum og nefnir Vilhjálmur í því samhengi að klára tvöföldun Reykjanesbrautar og breikkun Hvalfjarðarganga og Suðurlandsvegar.

Hægt að stilla gjaldinu í hóf

„Þarna er einfaldasta og effektívasta gjaldtakan og með þessari gjaldtöku er hægt að stilla gjaldinu í hóf því þá eru líka erlendir gestir að taka meiri þátt og miklu fleiri að borga,“ segir Vilhjálmur.

Hann bendir á að ef gjaldtaka væri yfir Hellisheiðina þá myndi kannski ferðin geta kostað 150 kr. en að nú eigi að taka gjald á Ölfusárbrú og það þurfi þá að vera hærra eða kannski um 600-700 kr. „Það eru færri sem fara og fleiri sem geta valið að fara framhjá,“ bætir hann við.

Spurður hvernig þetta horfi við þeim er sækja vinnu í höfuðborgina en búa utan hennar og þyrftu því að borga veggjöld tvisvar á dag segir Vilhjálmur að þeir myndu spara á því að fá greiðari og öruggari samgönguúrbætur fyrr.

„Vinnusóknarsvæði þeirra verður stærra, fasteignirnar verðmætari, fyrir utan tímasparnaðinn og eldsneytissparnaðinn. Það kostar líka að vera fastur í umferðarteppu.“

Jafnræði milli landshluta

Hann segir þá hugmynd hafa komið upp í umhverfis- og samgöngunefnd árið 2017 að gjaldtaka í jarðgöngum yrði þá samhliða gjaldtöku við höfuðborgarsvæðið. Hún átti að vera samhliða og vera til þess að gæta að jafnræði milli landshluta. „Þá vorum við að segja að allir landshlutar ættu að fá einhvers konar gjaldtöku.“

„Með okkar útfærslu, eins og við kynntum hana, þá voru erlendir ferðamenn að greiða meiripartinn en meðan við þráumst við gjaldtökuna þá eru íslenskir skattgreiðendur að borga þetta allt,“ segir Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert