Mælingar staðfesta mun kröftugra gos

Flogið yfir gossprunguna í dag.
Flogið yfir gossprunguna í dag. mbl.is/Ágúst Óliver

Fyrstu mælingar vísindamanna Jarðvísindastofnunar á hraunrennsli eldgossins í Meradölum sýna fram á að það hafi numið 32 rúmmetrum á sekúndu fyrstu klukkustundirnar.

Í tilkynningu frá stofnuninni segir að gossprungan sé um 300 metra löng og liggi í norð-norðaustur upp í hlíðar vestasta Meradalahnjúksins, og um einum kílómetra norðaustur af megingígnum sem var virkur í gosinu í Fagradalsfjalli í fyrra.

Gosið hófst laust upp úr klukkan 13 eftir hádegi og var fyrst greint frá því á mbl.is.

Yfir suðurenda kvikugangsins

„Staðsetningin fellur vel að því að gossprungan liggi yfir suðurenda gangsins sem verið hefur að myndast í jarðskorpunni undanfarna daga.“

Flogið var yfir gosið og rúmmál hraunsins mælt klukkan 17.05 í dag. Þá voru teknar loftmyndir með Hasselblad-myndavél Náttúrufræðistofnunar úr flugvél Fisfélags Reykjavíkur, TF-204.

Gerð hafa verið landlíkön eftir þessum mælingum og þau borin saman við eldri gögn, að því er segir í tilkynningunni.

Ekki í röð aflmeiri gosa

Hraunið mældist um 74 þúsund fermetrar, meðalþykktin 5,9 metrar og rúmmálið 0,43 milljón rúmmetrar. Gosið hafði á þessum tímapunkti staðið í þrjá og hálfan klukkutíma.

Meðalhraunflæði fyrstu tímana telst vera 32 rúmmetrar á sekúndu, eða um 4-5 sinnum meira en var í byrjun gossins í fyrra.

„Gosið nú er því mun kröftugra, en telst þó ekki í röð aflmeiri gosa. Stefnt er að því að mæla helst einu sinni á dag til að byrja með og verða tölur uppfærðar um leið og niðurstöður berast.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert