Minnkandi líkur á flugvelli í Hvassahrauni

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að ekki sé mikil hætta talin á að gos myndi ógna flugvellinum en ef gos yrði úti í sjó, gæti öskufall truflað umferð.

Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag, miðvikudag.

„Við erum með fjóra alþjóðlega flugvelli, Reykjavíkurflugvöll, Akureyri og Egilsstaði, auk Keflavíkurflugvallar. Við höfum verið með virka uppbyggingu bæði á Akureyri og Egilsstöðum og reynt að verja Reykjavíkurflugvöll af öllum mætti til þess að vera með öruggan varaflugvöll. Svæðið í Hvassahrauni hefur verið til skoðunar, en það er nokkuð ljóst að líkurnar á þeirri staðsetningu fara minnkandi með tilliti til þessarar eldgosahættu. Veðurstofan er með það verkefni að meta áhættuna og mun skila því í haust,“ segir Sigurður Ingi.

Hann minnir á að þrjár leiðir séu frá Reykjanesskaga í dag, Reykjanesbraut, Krýsuvíkurvegur og Suðurstrandarvegur. Hann telur að reyna verði með varnargörðum að halda leiðum opnum.

„Hins vegar er erfitt að setja upp varnir áður en við vitum hvar gosið verður. Við verðum eiginlega bara að fylgjast með, vera tilbúin en við getum ekki brugðist við fyrirfram á annan hátt en með því að vera undirbúin.“ 

Þarf að taka þessu grafalvarlega

„Það þarf að taka þessu grafalvarlega, eins og við höfum gert. Við höfum reynt að hafa puttann á púlsinum allan tímann í gegnum þetta tímabil frá gosinu í fyrra. Bæði með almannavörnum og hóp ráðuneytisstjóra á vegum ríkisstjórnarinnar til að vakta ástandið og meta stöðuna. Þannig kom þessi hugmynd með varnargarðana, “ segir Sigurður Ingi.

Hann bætir við að svæðið hafi verið kortlagt eftir síðasta gos. Farið hafi verið yfir helstu áhættusvæði, hvað þyrfti helst að verja og hvernig.

„Þetta snýst fyrst og fremst um að vera á vaktinni, vera með okkar færustu vísindamenn til ráðgjafar, í samstarfi við almannavarnir, heimamenn og sveitarstjórnirnar. Svo verður maður að vonast eftir bestu útkomunni, en vera undirbúinn fyrir það versta, eins vel og við getum.“

Meira í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert