„Hér er nóg um hrægamma, ein fékk gefins 3 hjólhýsi“

"Hér er verið að níðast á eldri borgurum, öryrkjum og barnafjölskyldum!!!" Stendur á skilti sem stendur við hjólhýsabyggðina á Laugarvatni.

Guðlaugur Stefán Pálmarsson, eigandi hjólhýsis í hjólhýsabyggðinni á Laugarvatni, segir mikið um að fólk geri sér leið til hjólhýsabyggðarinnar sem á núna að leggja niður til að notfæra sér stöðu fólks sem hefur ekki úrræði til að færa hjólhýsin sín eða selja eigur á svæðinu.

Eins og greint hefur verið frá var endanlega ákveðið að leggja niður hjólhýsabyggðina við Laugarvatn á fundi sveitarstjórnar Bláskógabyggðar í lok júní. 

Nýlega fengu all­ir eig­end­ur hjól­hýsa á svæðinu bréf frá sveit­ar­stjórn Blá­skóga­byggðar þar sem tilkynnt var að til stæði að loka fyr­ir raf­magn og vatn á svæðinu hinn 1. sept­em­ber. Var fólk því beðið um að hafa hraðar hend­ur og fjar­lægja hýs­in sín sem fyrst.

„Gamalmenni og öryrkjar í þunglyndi“

Guðlaugur segir þessar aðgerðir sveitarstjórnar koma niður á eldri borgurum og öryrkjum og öðrum sem hafa kannski ekki tíma né úrræði til að finna nýjan stað fyrir eigur sínar. 

„Hér eru gamalmenni og öryrkjar í þunglyndi undir sæng og úrræðalausir. Fólk er búið að neyðast til að gefa eigurnar sínar. Það er komið verr fram við okkur en glæpamenn og búpening.“

Guðlaugur Stefán Pálmarsson segir fólk á svæðinu vera úrræðalaust.
Guðlaugur Stefán Pálmarsson segir fólk á svæðinu vera úrræðalaust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hann segir marga ekki hafa efni á því að koma eigum sínum í skjól og neyðist því til að gefa þær þvert á sinn vilja. 

„Hér er nóg um hrægamma sem notfæra sér stöðuna. Það var ein kona hérna sem gekk um og spurði hvort að fólk væri að gefa og fékk gefins þrjú hjólhýsi,“ segir hann og ítrekar hversu sorglegt það er að mikið af þessu fólki sem hefur gefið hýsi sín muni aldrei eiga sumar afdrepi aftur.

Margir eigendur á svæðinu þurfa nú að hafa hraðar hendur …
Margir eigendur á svæðinu þurfa nú að hafa hraðar hendur til að rífa niður palla og fleira sem þau eiga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Heilablóðfall stuttu eftir tilkynninguna

Þá segir Guðlaugur að þessi ákvörðun að leggja niður hjólhýsabyggðina sé ekki aðeins að bitna fjárhagslega á fólki heldur hafi einnig áhrif á líkamlega og andlega heilsu fólks.

Þá segir hann að nýlega hafi 77 ára kona sem hafði dvalið á Laugarvatni yfir sumartíman í 30 ár látið lífið stuttu eftir að sveitarstjórn tók ákvörðun sína í lok júní. 

„Margir hérna skrifa dauðsfall hennar á þessar aðgerðir. Hún var alltaf glöð og kát en fór að æsa sig eftir þessi tíðindi, þá fór blóðþrýstingurinn upp úr öllu valdi og hún fékk heilablóðfall.“

Hann segir að sveitarstjórn hefði í það minnsta getað boðið upp á gáma á svæðið til að létta undan erfiðum fólks við að rífa allt niður og henda.

Frá hjólhýsabyggðinni á Laugarvatni.
Frá hjólhýsabyggðinni á Laugarvatni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
Frá hjólhýsabyggðinni á Laugarvatni.
Frá hjólhýsabyggðinni á Laugarvatni. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert