Stóra breytingin verður kílómetragjaldið

Bjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarpið í morgun.
Bjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarpið í morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Bifreiðagjald mun hækka á næsta ári og nýtt lágmarksvörugjald verður sett á bifreiðar sem leiðir til þess að fullur afsláttur af vörugjöldum á rafmagnsbíla verður úr sögunni. Stóra breytingin verður hins vegar þegar farið verður í innleiðingu á kílómetragjaldi. Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir að vonandi verði teknar ákvarðanir um það á næsta ári.

Hingað til hafa eigendur raf­magns­bíla og ten­gilt­vinn­bíla fengið ýmisskonar stuðning vegna kaupa og reksturs slíkra bíla. Þá hafa einnig komið inn litlar tekjur vegna notkunar þessara bíla af vegakerfinu, en fyrir bensín- og dísilbíla koma slík gjöld í gegnum skatta á eldsneyti.

„Ég sé fyrir mér að smám saman muni bensín- og dísilgjöld gefa eftir og jafnvel vera afnumin en að eftir standi kolefnisgjald,“ segir Bjarni spurður út í framtíðarhorfurnar í þessum efnum. „Við breytum þessum gjöldum yfir í kílómetragjöld, en gjaldtakan er að öðru leyti enn í mótun.“

Sér fyrir sér lægra meðalvörugjald til framtíðar

Á kynningarfundi vegna fjárlaga fyrir komandi ár ræddi Bjarni þessi mál og sýndi gögn um að vörugjöld vegna nýskráðra fólksbíla hefðu lækkað úr 642 þúsund niður í 288 þúsund á síðasta áratug. Þá væri einnig afsláttur af bifreiðagjöldum fyrir rafmagns- og tengiltvinnbifreiðar og sem fyrr segir litlar aðrar tekjur af notkun þeirra.

Spurður hvort von sé á að tekjur vegna bifreiða og notkunar þeirra muni einhvern tímann aftur ná fyrri stað segir Bjarni erfitt að segja til um það. „En við munum fara í áttina að því.“ Bætir hann við að of mikið væri sagt ef gert væri ráð fyrir að ná tekjunum að fullu. Þá þyrfti að fara í endurskoðun á því hvernig horfa ætti á vörugjöldin. Í dag helgast þau af losun, en með rafmagnsbílum þurfi eitthvað nýtt að sögn Bjarna. Hann gerir hins vegar ekki ráð fyrir að vörugjöldin verði jafn há og áður. „Ég sé fyrir mér lægra meðalvörugjald til lengri tíma en við höfum séð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert