„Rosalegt vantraust á vald þegar flokkurinn var stofnaður“

Jón Þór Ólafsson var einn af þeim sem stofnuðu Pírata.
Jón Þór Ólafsson var einn af þeim sem stofnuðu Pírata. mbl.is/Eggert

„Það þurfti að vera til flokkur sem setti í forgang þær ógnir og tækifæri fyrir borgararéttindi og lýðræðisumbætur sem tæknibyltingin var búin að leiða inn á þessum tíma þegar flokkurinn var að verða til árið 2013,“ segir Jón Þór Ólafsson, einn af stofnendum stjórnmálaflokksins Pírata.

Píratar fagna tíu ára flokksafmæli á þessu ári og verður aðalfundur um helgina, sem og lokað teiti. Síðar í ár, nær stofndegi flokksins, verður svo opinn fögnuður þar sem allir eru velkomnir.

„Á þessum tíma sem flokkurinn var stofnaður var líka rosalegt vantraust á vald og ákveðnar ógnir og líka tækifæri með borgararéttindi og lýðræðið og mér fannst þetta brjálæðislega mikilvægt,“ bætir Jón Þór við.

Hann ákvað að stíga til hliðar árið 2015 þegar honum fannst flokkurinn orðin sjálfbær, en kom svo aftur á þing ári síðar. Nú segir hann hins vegar að flokkurinn sé raunverulega orðinn sjálfbær og stígur feginn og sæll til hliðar.

Segir fagfólk í forystu í dag

Jón segist hæstánægður með stöðu flokksins og bendir á að grunnstefnur hans í upphafi, þá efling borgararéttinda, lýðræðisumbætur, og upplýsinga- og tjáningarfrelsi séu enn í fyrirrúmi í dag.

„Núna er ég mjög sáttur. Það er fólk með mikla reynslu í forystu. Grasrótin og flokksstarfið er orðið mjög faglegt. Svo er starfsfólk þingflokksins og flokksins mjög fært svo ég gat loksins stigið til hliðar og farið að hugleiða,“ segir Jón sem var nýkominn af hugleiðslunámskeiði þegar blaðamaður mbl.is náði tali af honum.

Jón bætir þá við að önnur stefnumál flokksins í dag endurspegli það þjóðfélag sem við búum í núna, en að það hafi tekist vel að nálgast helstu vandamál samtímans út frá grunnstefnunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert