Meiri stuðningur við Úkraínu

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir. mbl.is/Hákon Pálsson

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra segir spennu vegna stríðsins í Úkraínu vera að aukast frekar en hitt og að Ísland muni bæta í stuðning við Úkraínumenn.

„Það er full alvara á bak við það hjá okkur að styðja við Úkraínu eins og kostur er og því verkefni er ekki lokið. Það mun bæta þar í, enda eru þau í raun að berjast á öllum mögulegum vígstöðvum. Allt yfir í það að reka samfélagið frá degi til dags.“

Um innlimun úkraínsku héraðanna fjögurra í Rússland segir Þórdís Kolbrún: „Við höfum fordæmt innlimunina á sterkasta mögulega hátt og gerðum það um leið og við sáum í hvað stefndi.“ Hún segir svokallaða „atkvæðagreiðslu“ Pútíns um innlimunina ekki hafa nokkra einustu þýðingu og sé fyrir neðan allar hellur. „Landamæri Úkraínu breytast ekki þótt einn maður ákveði að svo hafi gerst og undirriti pappíra þess efnis, eftir árásir, ofbeldi og brot á alþjóðalögum. Ekki er hægt að ítreka það nógsamlega hversu mikið við Íslendingar eigum undir að það sé einmitt ekki þannig.“

Úkraínskir hermenn í Karkív-héraði.
Úkraínskir hermenn í Karkív-héraði. AFP/Yashuyoshi Chiba

Þórdís segir spennustigið vissulega hafa hækkað og skemmdarverk á gasleiðslum í Eystrasalti séu alvarleg. Það sé þó mikilvægt að muna að okkar innviðir, svo sem sæstrengir frá landinu til meginlandsins, séu ekki í meiri hættu en annarra. „En þetta eru alvarleg tíðindi og það liggur ekki fyrir hvort fundið verði út úr því hver var þarna að verki. Vonandi leiða næstu dagar eitthvað í ljós. Að minnsta kosti erum við í nánu samstarfi og samtali við bæði Norðurlandaþjóðirnar, Eystrasaltsríkin og vina- og bandalagsþjóðir nær okkur. Næstu dagar hjá mér fara meðal annars í þau samtöl.“

Mikilvægt að hafa tvíhliða samband í huga

Hvort aukið spennustig kalli á aukin hernaðarumsvif hér á landi segir Þórdís mikilvægt að hafa í huga að samband Íslands við bandalagsþjóðir sínar sé tvíhliða.

„Annars vegar er mikilvægt að það sé nægilega mikið gert fyrir okkar öryggi hér og hins vegar það sem bandamenn okkar telja að þurfi að eiga sér stað hér, til að mynda í formi allra handa eftirlits í þágu öryggis svæðisins alls. Því eigum við líka að vera tilbúin að taka á móti og taka þátt í. Við eigum að verða verðugir bandamenn“.

Lesa má nánar um málið í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert