Stóðu ekki nægjanlega vel við bakið á fréttamönnum

Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri.
Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri. mbl.is/Sigurður Bogi

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri segir að betur hefði mátt standa við bakið á fréttamönnum stofnunarinnar í tengslum við Samherjamálið. Þetta er meðal þess sem kemur fram í viðtali við hann á vef Blaðamannafélags Íslands, en þar ræðir hann einnig nýjar siðareglur RÚV sem tóku gildi í júní á þessu ári og um leið ný stefna RÚV fyrir 2022-2026.

Fyrri siðareglur höfðu verið í gildi frá árinu 2016 en í nýjum reglum er það helst að siðanefnd hefur verið lögð niður auk þess sem umdeilt ákvæði um tjáningu starfsmanna RÚV á samfélagsmiðlum er ekki lengur í reglunum.

Í viðtalinu við Stefán, sem tók við sem útvarpsstjóri árið 2020, er hann meðal annars spurður hvort hann sé sammála fullyrðingu Helga Seljan um að stjórnendur RÚV hafi brugðist sér þegar hann var úrskurðaður sekur um alvarlegt brot á þágildandi siðareglum RÚV. Helgi var dæmdur fyrir ummæli sem hann lét falla á Facebook þar sem hann svaraði fyrir sig eftir að útgerðarfyrirtækið Samherji hóf ófrægingarherferð gegn honum.

Helgi Seljan sagði stjórnendur RÚV hafa brugðist sér þegar hann …
Helgi Seljan sagði stjórnendur RÚV hafa brugðist sér þegar hann var úrskurðaður sekur um alvarlegt brot á þágildandi siðareglum RÚV.

Stefán segir að ekki hafi verið staðið nægjanlega vel við bakið á þeim fréttamönnum og öðrum starfsmönnum sem lentu í þessum hremmingum fyrir það eitt að hafa verið að sinna sinni vinnu.

Í viðtalinu segir Stefán enn fremur að þetta hafi ekki einungis tengst þessum siðareglum.

„Það held ég að hafi ekki tengst bara þessum siðareglum eða þessu tiltekna máli heldur ýmsu öðru, eins og t.d. aðgengi að og afhendingu á gögnum til þessa aðila, sem misnotaði það efni síðan sem varð til þess að við tókum fyrir það að láta efni af hendi í eigin framleiðslu þessa fyrirtækis á „fréttum“.“

Útvarpsstjóri með endanlegt ákvörðunarvald

Sérstaka athygli vekur 10 grein um eftirfylgni í nýju reglunum þar sem fram kemur að útvarpsstjóri, eða eftir atvikum stjórn RÚV ef málefnið varðar útvarpsstjóra skuli ávallt hafa endanlegt ákvörðunarvald.

Í viðtalinu segir Stefán að það sé í höndum hvers og eins stjórnanda að taka á ásökunum sem upp koma um meint brot á siðareglum. Hann segir jafnframt að útvarpsstjóri geti komið að endanlegri ákvarðanatöku í slíkum málum, ef þannig ber undir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert