Lífeyrissjóðirnir í samstarf vegna stöðu ÍL-sjóðs

Lögfræðistofan Logos hefur verið ráðin lögfræðilegur ráðgjafi lífeyrissjóðanna.
Lögfræðistofan Logos hefur verið ráðin lögfræðilegur ráðgjafi lífeyrissjóðanna. mbl.is/Sigurður Bogi

Flestir lífeyrissjóðir landsins hafa myndað sameiginlegan vettvang vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í sambandi við ÍL-sjóð. Er það gert vegna þeirra gríðarlegu hagsmuna sem eru í húfi fyrir íslenska sjóðsfélaga, að segir í tilkynningu frá lífeyrissjóðunum. 

Lögfræðistofan Logos hefur verið ráðin sem lögfræðilegur ráðgjafi lífeyrissjóðanna og er nú unnið að því greina lögfræðileg álitamál.

Bent er á að fjármálaráðherra hafi lýst því yfir að ríkið hafi ákveðið að grípa til aðgerða vegna stöðu sjóðsins sem stefnir í þrot innan tólf ára, en stærstu eigendur skuldabréfa útgefnum af sjóðnum eru lífeyrissjóðir.

Telja forsvarsmenn sjóðanna rétt að vinna saman í greiningu á stöðu sjóðanna vegna þessa. Hver og einn sjóður mun þó að endingu taka sjálfstæða ákvörðun um málið.

Þetta kom fram á fjölmennum upplýsingafundi sem flestir lífeyrissjóðir landsins mættu til í dag.

Hafa gengið frá ráðningu lögfræðilegs ráðgjafa

ÍL-sjóður var stofnaður árið 2019 þegar Íbúðalánasjóður var lagður niður í þáverandi mynd og tvær nýjar stofnanir tóku við hlutverkum hans. ÍL-sjóður ber ábyrgð á öllum skuldbindingum Íbúðalánasjóðs og eignum, fyrir utan útlánum tengdum félagslegu húsnæði.

Fjármálaráðherra hefur sagt að þrír kostir séu fyrir hendi hvað varðar mögulegar aðgerðir ríkisins.

Í fyrsta lagi að halda áfram að leggja ÍL-sjóðnum til fjármuni, sem ráðherra telur þó að komi ekki til greina. Í öðru lagi að knýja sjóðinn í gjaldþrot með sérstakri lagasetningu, til að losna undan ríkisábyrgð. Í þriðja lagi að ná samkomulagi við skuldabréfaeigendur, sem að stærstum hluta eru lífeyrissjóðir, um uppgjör.

„Á fundinum í dag kom fram að einhugur væri um samstarf vegna greiningu stöðunnar vegna þessa máls, enda gríðarlegir hagsmunir í húfi fyrir íslenska sjóðfélaga. Þegar hefur verið gengið frá ráðningu lögfræðistofunnar Logos sem lögfræðilegs ráðgjafa lífeyrissjóðanna, unnið er að því að greina lögfræðileg álitamál, hagsmuni sjóðanna – og þar með almennings í landinu – og frekari framgangi málsins. Þá hafa fjárhagslegir ráðgjafar jafnframt verið ráðnir,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert