Miklu fórnað fyrir erlenda aðila

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins.
Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins. Morgunblaðið/Sigurður Bogi

„Handarbaksvinnubrögð, geðþóttaákvarðanir og almennt klúður,“ segir Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingmaður Flokks fólksins, að séu sín fyrstu viðbrögð við skýrslu Ríkisendurskoðunar vegna sölu á hluta Íslandsbanka í vor. 

Hún segir ljóst að það að Bankasýsla ríkisins hafi ekki haft neina reynslu af þessu tilboðsfyrirkomulagi sé alvarlegt, að annmarkar á framkvæmd hafi verið of margir. Sérstaklega tilgreinir hún vanmat á eftirspurn sem hafði síðan áhrif á lokaverð. 

„Kynningar fjármála- og efnahafsráðuneytisins og Bankasýslunnar á tilboðsfyrirkomulaginu fyrir Alþingi og almenningi hafi ekki varpað nægilegu ljósi á raunverulegt eðli fyrirkomulagsins og hafi þannig beinlínis verið villandi. Það er hægt að halda endalaust áfram,“ segir Ásthildur. 

Vitum ekki hverjir eru á bak við sjóðina

Hún segir tilkomu verðmyndunar vera alvarlegasta hlutann og gefur lítið fyrir útskýringar Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á því að gengið hafi verið að lægra verði en þurfti.

„Það er ljóst að það bárust tilboð í allan hlutinn á dagslokagegni bankans á söludegi. Maður bara spyr sig; af hverju þessi lækkun þegar eftirspurnin er svona mikil?“

Hún segir að útskýringar Bjarna um að taka þyrfti tillit til erlendra aðila væru ófullnægjandi. „Erlendu aðilarnir voru sjóðir sem enginn veit hverjir eru á bak við. Það gætu þess vegna verið Íslendingar. Við höfum ekki hugmynd um það. Hvað er fengið með svoleiðis aðilum þegar við vitum ekki einu sinni hverjir það eru? Það var miklu fórnað fyrir þessa erlendu aðila,“ segir hún. 

Ömurlegt að skýrslan hafi lekið

Varðandi leka skýrslunnar daginn áður en til stóð að kynna hana í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins og birta síðan í kjölfarið, segir Ásthildur að hann sé ömurlegur. 

„Ég hef ekki hugmynd um hver lak þessu. Ég veit bara að það var ekki ég. Ég á erfitt með að trúa þessu upp á félaga mína í nefndinni sem mér fannst öll vera slegin yfir þessu,“ segir Ásthildur og bætir við: „Það er kannski enginn sem græðir á þessum leka, nema hugsanlega fjármálaráðherra.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert