Nóg fjármagn „til þess að fara í stríð gegn fólki“

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata.
Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata. mbl.is/Kristinn Magnússon

Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, gagnrýndi Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag fyrir að leggja ekki meiri áherslu á geðheilbrigðismál í ljósi aukinnar hörku í ofbeldisglæpum.

Halldóra vísaði í orð Jóns Gunn­ars­sonar dóms­málaráðherra í dag er hann lýsti yfir stríði gegn skipu­lagðri brot­a­starf­semi.

„Það á að fara í enn eitt stríðið gegn fólki sem er að öllum líkindum í rótina að kljást við afleiðingar langvarandi áfallastreitu. Stríð gegn fólki sem aldrei hefur fengið viðunnandi aðstoð. Ofbeldi verður nefnilega ekki til í tómarúmi,“ sagði Halldóra og spurði ráðherra hvort hann væri með einhverjar raunverulegar aðgerðir í vinnslu, sérstaklega í geðheilbrigðiskerfinu. 

Andleysi einkenni störf ráðherra

Willum nefndi að opin og fordæmalaus umræða um geðheilbrigðismál til að valda ekki jaðarsetningu einstaklinga væri mjög mikilvæg. 

Halldóra sagði að þögn ráðherra hafi verið ærandi og að gríðarleg vonbrigði væri að vera vitni að „þessu andleysi sem einkennir störf hæstvirts heilbrigðisráðherra“.

Hún sagði ríkja neyðarástand í þessum málaflokki. 

„Það virðist vera til nóg fjármagn hjá hæstvirtum dómsmálaráðherra til þess að fara í stríð gegn fólki. Þá hlýtur að vera til peningur til þess að hjálpa fólki,“ sagði Halldóra og spurði Willum hvort hann væri sáttur við þessa forgangsröðun. 

Willum sagði þá að fjármagn til geðheilbrigðisteyma um allt land hafi aukist verulega. „Sem var mikið framfaraskref og hefur gefið góða raun.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert